Hoppa yfir valmynd
1. mars 2023 Matvælaráðuneytið

Ný reglugerð um verndun viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa

Í dag eru vernduð svæði 17 talsins og ná til tæplega 2% af fiskveiðilandhelginni. - mynd

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur staðfest reglugerð um verndarráðstafanir vegna viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa. 

Í reglugerðinni eru skilgreind þrjú ný svæði þar sem botnveiðar verða óheimilar. Að auki hafa verið færð inn í sömu reglugerð svæði sem áður voru í reglugerð um friðunarsvæði við Ísland. Allar veiðar nema handfæraveiðar og veiðar á uppsjávarfiski með flotvörpu og hringnót verða framvegis óheimilar á þessum svæðum. Við gildistöku þessarar reglugerðar verða allar botnveiðar bannaðar samtals á sautján svæðum í fiskveiðilandhelgi Íslands, en svæðin taka til tæplega 2% af fiskveiðilandhelginni.

Flest svæðanna hafa verið lokuð fyrir veiðum með línu og/eða botnvörpu um langa tíð eða allt frá árinu 1971. Einnig hafa ellefu svæði til verndunar kóralla verið færð inn í reglugerðina en botnveiðar hafa verið óheimilar á hluta þeirra í tæp tuttugu ár.

„Verndun líffræðilegrar fjölbreytni er ein stærsta áskorun samtímans“ sagði matvælaráðherra. „Verndun vistkerfa hafsins er þar mikilvægur þáttur. Markmið alþjóðasamfélagsins eru háleit, stefnt er að verndun um 30% hafsvæða heimsins. Við þurfum að gera betur í þessum málaflokki og þetta er mikilvægt skref í þá átt.“

Sjá reglugerð í stjórnartíðindum.


  • Vernduð svæði við Vesturland og Reykjanes. - mynd
  • Vernduð svæði við Vestfirði. - mynd
  • Vernduð svæði við Norður- og Norðausturland. - mynd
  • Vernduð svæði við Suður- og Suðausturland. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum