Hoppa yfir valmynd
27. september 2006 Innviðaráðuneytið

Mikilvægt að tilkynna um slys og atvik

Öryggismál sjómanna og annarra sjófarenda þurfa alltaf að vera í deiglunni, sagði Sturla Böðvarsson meðal annars þegar hann setti ráðstefnu um öryggi sjófarenda í dag. Er hún haldin í Fjöltækniskóla Íslands og er hluti af dagskrá öryggisviku sjómanna sem nú stendur. Jafnframt minnti ráðherra á hvatningu öryggisvikunnar að skipshafnir efni til björgunaræfinga á morgun.

oryggisfundur sjom
Sturla Böðvarsson flutti ávarp við setningu ráðstefnu um öryggismál sjófarenda.

Fjölmargir fyrirlestrar eru fluttir á ráðstefnunni í dag. Í upphafi fór Gísli Viggósson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun Íslands, yfir áætlun um öryggismál sjómanna árin 2007 til 2010. Nefndi hann helstu verkefni sem unnið verður að samkvæmt áætluninni en 20 milljónum króna er veitt á ári til þessa verkefnis.

Ingimundur Valgeirsson, verkfræðingur hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, ræddi um öryggisstjórnun í fiskiskipum. Sagði hann brýnt að reglulegt eftirlit með öryggisbúnaði færi fram í skipum umfram það sem eftirlitsaðilar önnuðust. Minnti hann einnig á að skylt væri að tilkynna Rannsóknarnefnd sjóslysa og Tryggingastofnun um slys í skipum. Þá sagði hann ekki síður mikilvægt að sjómenn tilkynntu um atvik sem hefðu næstum því orðið slys þar sem iðulega væri unnt að draga lærdóm af slíkum atvikum.

Af öðrum erindum á ráðstefnu um öryggismál sjófarenda má nefna umfjöllun um viðhorf útgerða til öryggisstjórnunar í fiskiskipum, eldvarnir og greint er frá ýmsum rannsóknum.

Sturla Böðvarsson sagði meðal annars í ræðu sinni: ,,Langtímaáætlun um öryggi sjófarenda er í dag hluti af samgönguáætlun hverju sinni. Þessi áætlun var í fyrstu samþykkt sem sérstök þingsályktunartillaga og tók til aðgerða árin 2001 til 2003. Í framhaldinu var öryggisáætlunin felld inní samgönguáætlun og fjármunum veitt til verkefnisins. Á þessu ári fara 20 milljónir í áætlun um öryggi sjófarenda og sömu upphæð verður veitt til hennar næsta ár og árið 2008. Nú er unnið að endurskoðun Samgönguáætlunar og gert ráð fyrir afgreiðslu hennar á næsta þingi.

Undir langtímáætlun um öryggi sjófarenda falla verkefni á sviði menntunar og þjálfunar sjómanna, gerð fræðsluefnis, öryggis- og gæðastjórnunarkerfi, rannsóknir og margt fleira. Allt þetta miðar að því markmiði áætlunarinnar að auka öryggi og draga úr slysum meðal sjómanna. Við megum ekki gleyma því markmiði og við megum ekki slá slöku við í þessum efnum.

Tölur sýna okkur að það hefur tekist ? en verkefninu er þó hvergi nærri lokið.

Banaslysum meðal sjómanna hefur fækkað hægt og bítandi. Árin 1990 til 1993 voru þau á bilinu 9 til 13, árið 1996 voru þau 10 og 2001 6. Inná milli hafa komið góð ár með aðeins einu eða tveimur banaslysum og í fyrra var það aðeins eitt. Við getum kannski ekki bent á neitt eitt atriði sem skýrir þessa fækkun nema þá almennu hugarfarsbreytingu sem fylgir því að við tökum þessi mál almennt fastari tökum og höfum aukið viðbúnað og varúðarráðstafanir sem draga úr slysaáhættu. Og aftur minni ég á að við megum ekki slá slöku við.?



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum