Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2006 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Mælir fyrir sex lagafrumvörpum í dag

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mælir í dag fyrir sex lagafrumvörpum sem hann leggur fram á Alþingi. Tvö þeirra snúast um flugmál, eitt um umferð, eitt um Póst og fjarskiptastofnun og tvö varða siglingamál, áhafnir og hafnir.

Frumvarp til breytinga á hafnalögum snýst meðal annars um að skipulag hafnar er framvegis falið hafnarstjórn en áfram gert ráð fyrir samráði við Siglingastofnun og að leitað sé eftir framkvæmdaleyfi sveitastjórnar. Einnig er fjallað um birtingu gjaldskrár hafnar, gjaldtökuheimild og upplýsingaskyldu og fleira.

Frumvarp um breytingu á loftferðalögum snýst meðal annars um að tryggja lagastoð fyrir innleiðingu EES gerða sem hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en ekki innleiddar í íslenskan rétt. Fjallar það til dæmis um að heimila Flugmálastjórn að banna flug loftfara frá ákveðnum flugrekstraraðilum eða einstökum ríkjum sem sett hafa verið á svonefndan svartlista ESB. Einnig eru ný ákvæði um að farþegar séu jafnan upplýstir um hver sé hinn raunverulegi flytjandi.

Frumvarp um breytingu á lögum um Flugmálastjórn Íslands tekur einkum til ákvæða er varða gjaldtöku Flugmálastjórnar.

Frumvarp til laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa hefur það meginmarkmið að efla öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra en jafnframt að stuðla að auknum vörnum gegn mengun sjávar.

Frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun snýst um að breyta tekjugrunni stofnunarinnar.

Frumvarp vegna breytinga á umferðarlögum tekur til nýmæla er varða meðal annars stigskipt ökuskírteini og ýmsar takmarkanir á akstursréttindum ungra ökumanna.

Sjá má upplýsingar um umræður á Alþingi á vefsíðu þingsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum