Hoppa yfir valmynd
31. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Fyllsta flugöryggis gætt þótt þjónusta verði takmörkuð í byrjun

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur svarað bréfi frá Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem honum barst að kvöldi 30. desember en þar lýsir nefndin áhyggjum vegna ,,þeirrar stöðu sem fyrirsjáanleg er í flugumferðarstjórn í íslenska flugstjórnarsvæðinu nú um áramót," eins og segir í bréfinu. Í svari samgönguráðherra segir að fyllsta flugöryggis sé gætt þrátt fyrir að þjónusta verði takmörkuð í byrjun.

Í bréfi öryggisnefndar FÍA kemur meðal annars fram að hún telji að flugöryggi muni skerðast ef viðbúnaðaráætlun Flugstoða ohf. vegna skorts á mannafla verður virk. Áætlunin byggist á verulegri takmörkun á þjónustu við flugumferðar og er skorað á samgönguyfirvöld að koma í veg fyrir að grípa þurfi til ofangreindrar viðbúnaðaráætlunar.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir í svarbréfi sínu sem sent var öryggisnefnd FÍA uppúr hádegi í dag að viðbúnaðaráætlun liggi fyrir og að Alþjóða flugmálastofnunin hafi samþykkt hana. Þá fylgir svari samgönguráðherra bréf frá Flugmálastjórn sem einnig svarar erindi öryggisnefndar FÍA efnislega.

Bréfaskiptin fara hér á eftir: 

 

Tölvupóstur frá öryggisnefnd FÍA 30. 12.:

Samgönguráðherra,

hr. Sturla Böðvarsson.

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar stöðu sem fyrirsjáanleg er í flugumferðarstjórn í íslenska flugstjórnarsvæðinu nú um áramót. Öryggisnefndin telur víst að flugöryggi muni skerðast frá því sem verið hefur ef viðbúnaðaráætlun Flugstoða ohf., sem lögð er fram vegna skorts á mannafla, verði virkjuð. Áætlunin byggir á verulegri takmörkun á og þjónustu við flugumferð svo sem með takmörkunum á umferð, takmörkunum á flugferlum, takmörkunum á flughæðum, takmörkunum á komu- og brottflugi, lágmarks talviðskiptum við flugstjórnarmiðstöð, skertu eða engu ratsjáreftirliti og að flugumferðarstjórn er lögð af frá flugturnunum á Reykjavíkurflugvelli og á Akureyri. 

Öryggisnefndin varar sérstaklega við þeim hættum sem skapast geta á og við Reykjavíkurflugvöll.

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna skorar á samgöngu- og flugmálayfirvöld að koma í veg fyrir að grípa þurfi til ofangreindrar viðbúnaðaráætlunar við flugumferðarstjórn þannig að ekki sé tekin óþarfa áhætta á að fórna þeim mikla og góða árangri sem náðst hefur í flugöryggismálum íslendinga á undanförnum árum.

f.h. Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna,

Jakob Ólafsson,

formaður.

 

Svar samgönguráðherra til öryggisnefndar FÍA:

  

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna

b.t. Jakobs Ólafssonar, formanns.

 

Vísað er til bréfs öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna til samgönguráðherra sem barst í tölvupósti að kvöldi 30. desember s.l. Leitað var umsagnar Flugmálastjórnar vegna bréfsins og er svar stofnunarinnar meðfylgjandi. Ráðuneytið vísar efnislega til þess.

Við þessar aðstæður hefur verið lögð á það rík áhersla á að viðbúnaðaráætlun Flugmálastjórnar tryggi flugöryggi þrátt fyrir að dregið verði úr þjónustu til að byrja með.

Ráðuneytið væntir þess að öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna svo og flugmenn og allur almenningur hafi skilning á stöðu mála.

Fyrir hönd samgönguráðherra

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Svar Flugmálastjórnar vegna bréfs öryggisnefndar FÍA:

 

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna

31/12/2006

 

Vegna bréfs frá öryggisnefnd FÍA, frá 30. desember 2006, vill Flugmálastjórn árétta eftirfarandi atriði.

 

  • Viðbúnaðaráætlun Flugmálastjórnar er sérstaklega sett til þess að halda uppi fullu flugöryggi við óvenjulegar aðstæður. Þetta á bæði við á farflugsleiðum og í flugi kringum flugvelli, þar sem þjónustu verður breytt í flugupplýsingaþjónustu. Augljóst er að nokkuð dregur úr afkastagetu af þessum orsökum, en flugöryggi er ekki skert á neinn hátt.

 

  • Vegna takmarkanna í viðbragðsáætluninni verður flugöryggisstig í sumum tilvikum hærra en við hefðbundnar aðstæður þar sem aðskilnaður er tryggður fyrirfram með því að beina flugumferð inn á fasta ferla fremur en að leyfa lítt heftar flugáætlanir, sem verður oft að vera undir stöðugri ratsjárstjórn til að tryggja aðskilnað og kalla á meira vinnuframlag flugumferðarstjóra.

 

  • Ratsjáreftirlit verður fyrir hendi en ekki verður veitt aðskilnaðarþjónusta með ratsjá nema í undantekningartilvikum. Engin vandkvæði verða á fjarskiptasambandi við flugstjórnarmiðstöðina eða flugturna þótt ætlast sé til að fjarskipti við leiðarflug á úthafinu fari að mestu fram gegnum Gufunes fjarskiptastöðina.

 

  • Umferð um Reykjavíkurflugvöll verður takmörkuð þannig að engin vandkvæði verða á aðskilnaði flugvéla. Flugupplýsingaþjónustan þar sem á öðrum flugvöllum verður í höndum mjög reyndra einstaklinga.

 

Flugmálastjórn áréttar ennfremur að fulltrúar öryggisnefndar FÍA voru viðstaddir kynningu á áætluninni og tóku þátt í umræðum um hana á fundi með forsvarsmönnum flugumferðarsviðs Flugmálastjórnar Íslands sl. fimmtudag. Engar sérstakar áhyggjur vegna flugöryggis munu hafa komið fram á þessum fundi af hálfu fulltrúa ÖFÍA eða frá öðrum fulltrúum flugrekenda, sem sátu þennan fund og annan slíkan sl. föstudag.

 

Fyrir liggur að flugumferðarstjórum hjá Flugmálastjórn Íslands hafa verið boðin óbreytt launakjör og lífeyristryggingar eins og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar, enda eru kjarasamningar í fullu gildi. Tæplega 160 manns hafa þekkst störf á þessum grundvelli þar á meðal um 25 flugumferðarstjórar. Flugstoðir ohf. hafa enga leið til að þröngva mönnum til að þiggja starf hjá félaginu ef þeir telja þau ekki fýsileg. Hins vegar mun félagið vinna að því að fjölga starfsmönnum og auka þjónustustigið eins fljótt og kostur er eftir að það tekur til starfa.

Með bestu áramótakveðjum,

Þorgeir Pálsson flugmálastjóri

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum