Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðherra hlerar sjónarmið flugrekenda

Nokkuð á annan tug flugekenda ásamt fulltrúum samgönguráðuneytisins, Flugmálastjórnar Íslands og Flugstoða ohf. sátu fund sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra boðaði til í dag. Fjallað var um breytingar á skipulagi flugmála sem gengu í gildi um síðustu áramót og greindu flugrekendur frá reynslu sinni og viðruðu sjónarmið sín.

Fundur samgönguráðherra með flugrekendum.
Fundur samgönguráðherra með flugrekendum.

Sturla Böðvarsson fór í upphafi yfir áhrif breytinganna og ræddi flugmál frá ýmsum hliðum, sagði breytingar fyrirhugaðar varðandi Keflavíkurflugvöll, samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll væri í undirbúningi og Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram miðstöð innanlandsflugs til 2016 og jafnvel lengur en beðið er niðurstöðu úttektar á Reykjavíkurflugvelli og öðrum kostum fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Þá sagði samgönguráðherra brýnt að hlúa að starfsemi flugskóla og efla nám í flugtengdum störfum meðal annars vegna aukinna öryggiskrafna.

Pétur Maack flugmálastjóri og Ólafur Sveinsson, formaður stjórnar Flugstoða ohf., fjölluðu einnig um breytingarnar og í kjölfarið ræddu fulltrúar flugrekenda um ýmis atriði sem þeir töldu mikilvæg að íhuga áfram. Var meðal annars rætt um skattamál, tvískiptingu á stjórn flugmála á Keflavíkurflugvelli annarsvegar og hins vegar fyrir flugmál að öðru leyti og útboð á flugleiðum. Einnig komu fram þau sjónarmið að tryggja þyrfti hagkvæmni við alla þjónustu flugmálayfirvalda og tryggja að þjónustugjöld hefðu ekki neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga. Þá var minnt á þýðingu þess að Reykjavíkurflugvöllur þjóni landsbyggðinni og talið nauðsynlegt að stjórnvöld geri flugrekendum áfram kleift að reka starfsemi sína frá flugvellinum. Lögðu flugrekendur áherslu á nauðsyn þess að flugstarfsemin hafi góða aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli, svo sem góð flugskýli.

Flugrekendur lýstu ánægju sinni með að fá tækifæri til skoðanaskipta á þennan hátt við yfirvöld samgöngumála og samgönguráðherra sagði gagnlegt að heyra sjónarmið og skoðanir beint frá atvinnugreininni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum