Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Fjölbreytt dagskrá í alþjóðlegri umferðaröryggisviku

Sýningin umferðaröryggi fjölskyldunnar var opnuð í dag þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setti alþjóðlega umferðaröryggisviku. Meðal dagskráratriða í vikunni eru fræðslufundir, tónleikar, æfingaakstur og fleira.


Á sýningunni sem opnuð var í dag hjá Sjóvá forvarnahúsi við Kringluna í Reykjavík eru kynnt umferðaröryggismál sem varða alla fjölskylduna. Þar er að finna veltibíl, bílbeltasleða, ökuhermi og fleira forvitnilegt sem undirstrikar nauðsyn þess að nota öryggisbúnað bílsins. Einnig verða veittar upplýsingar um notkun barnabílstóla, reiðhjólahjálma og fleira.

Alþjóðleg umferðaröryggisvika sett
Sturla Böðvarsson setti alþjóðlega umferðaröryggisviku í morgun.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur afleiðingar umferðarslysa stærsta heilbrigðisvanda þjóða heims en um 1,2 milljónir manna bíða árlega bana í umferðarslysum. Sameinuðu þjóðirnar gangast fyrir fyrstu alþjóðlegu umferðaröryggisvikunni en tilgangur hennar er að fá yfirvöld aðildarlanda til að samþykkja pólitíska stefnumörkun um að uppræta umferðarslys, að veita fé til að efla umferðaröryggi í þróunarlöndum og að efla vitund stjórnmálamanna, fjölmiðla og ungra ökumanna um umferðaröryggi.

Á degi hverjum látast um þrjú þúsund manns í umferðarslysum í heiminum og af þessum fjölda eru um 500 börn. Þá er talið að um 1.500 börn slasist alvarlega á hverri mínútu.

,,Það er sama hvert litið er, alls staðar tekur umferðin sinn toll og alls staðar kostar hún ómældar þjáningar og sorg fyrir utan eigna- og fjárhagstjón,” sagði Sturla Böðvarsson meðal annars þegar hann setti umferðaröryggisvikuna.

,,Við Íslendingar þekkjum þessar hliðar umferðarinnar og við höfum ekki farið varhluta af þeirri skelfingu sem umferðarslys eru. En við höfum enga ástæðu til að sitja þegjandi eða aðgerðalaus hjá þessum voða. Við erum sammála um að aðgerða er þörf og þannig hafa bæði almenningur og yfirvöld gripið í taumana.

Við þurfum að gera betur og þess vegna tökum við þátt í umferðaröryggisviku. Við notum tækifærið og reynum að bregðast við of mörgum slysum sem langoftast stafa af of miklum hraða eða bílbelti eru ekki notuð eða menn setjast ölvaðir undir stýri.

Hver eru viðbrögð okkar við þessu?

Viðbrögðin koma fram í umferðaröryggisáætlun þar sem er bæði stefnt að auknu aðhaldi og aðgerðum af hálfu lögreglu og lögð áhersla á vitundarvakningu til að byggja upp eins konar öryggismenningu í umferðinni. Alls verður varið 1.763 milljónum króna til umferðaröryggisaðgerða næstu fjögur ár.”


Alþjóðleg umferðaröryggisvika sett
Meðal þess sem hægt er að fræðast um í forvarnahúsi er hversu mikið átak verður þegar mannslíkaminn verður fyrir höggi í bíl á ýmsum hraða. Samgönguráðherra er hér veginn og metinn og Einar Guðmundsson forvarnafulltrúi skýrir út málið fyrir fjölmiðlum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum