Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Kynnti sér starf Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti sér í gær starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Markmið félagsins er meðal annars að leiða umbreytingu á varnarsvæðinu fyrrverandi til borgaralegra nota.

Samgönguráðherra heimsótti Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.
Samgönguráðherra heimsótti Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður félagsins, og Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri þess, tóku á móti samgönguráðherra og fylgdarliði og kynntu honum starfsemina. Fram kom að fyrir nokkru voru ýmsar eignir auglýstar til sölu eða leigu og hafa þegar allmörg tilboð borist sem verið er að vinna úr. Þá hafa félaginu borist tugir hugmynda um hvernig nýta mætti húsakost og flugvallasvæðið og er nú unnið úr þeim.

Þegar hefur verið ákveðið að ráðast í undirbúning að því að koma af stað háskólastarfsemi í samstarfi við Háskóla Íslands. Er ætlunin að efna til alþjóðlegs háskólanáms þar sem áhersla yrði til dæmis lögð á kennslu í greinum sem tengjast samgöngumálum og flugstarfsemi. Þá hefur verið varpað fram þeirri hugmynd að reka mætti kvikmyndaver á svæðinu og er sú hugmynd til ítarlegrar skoðunar.

Fram kom í máli forráðamanna Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar að íbúðir, atvinnuhúsnæði og aðstaðan við flugvöllinn gefa fjölmörg tækifæri til að byggja upp nýja starfsemi og laða að svæðinu innlenda sem erlenda fjárfesta og fyrirtæki.


Samgönguráðherra heimsótti Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.
Magnús Gunnarsson stjórnarformaður (lengst til hægri) kynnti Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra og Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra starf Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Lengst til vinstri er Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri félagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum