Hoppa yfir valmynd
23. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Starfshópur um almenningssamgöngur skipaður

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði í dag í starfshóp til að vinna að eflingu almenningssamgangna sveitarfélaga. Er það í framhaldi af samkomulagi Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, og ráðherra sem þeir skrifuðu undir 27. apríl.

Sturla Böðvarsson skrifar undir skipunarbréf starfshóps um almenningssamgöngur.
Sturla Böðvarsson skrifar undir skipunarbréf starfshóps um almenningssamgöngur.

Starfshópinn skipa: Páll Brynjarsson, bæjarstjóri Borgarbyggðar, skipaður án tilnefningar, sem verður formaður hópsins, Finnur Tryggvi Sigurjónsson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, samkvæmt tilnefningu ráðuneytisins, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, skipaður án tilnefningar og tilnefnd frá Samband íslenskra sveitarfélaga eru skipuð þau Þorbjörg H. Vigfúsdóttir borgarfulltrúi, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Sigurður Magnússon sveitarstjóri.

Starfshópnum er falið að leggja fram tillögur um að efla og bæta nýtingu almenningssamgangna sveitarfélaga. Skal starfshópurinn meðal annars kanna möguleika sveitarfélaga til að byggja upp og stjórna almenningssamgöngum og gera þær notendavænni meðal annars með hóflegri gjaldtöku af notendum þjónustunnar með aðkomu og stuðningi ríkis og sveitarfélaga.

Samkomulagið er í samræmi við stefnumótun í samgönguáætlun fyrir árin 2007 til 2010. Þar segir meðal annars að með því að efla og nýta betur almenningssamgöngur verði unnið að því markmiði að draga úr mengun af völdum bílaumferðar og þar með minnkun svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar jarðefnaeldsneytis.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum