Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2008 Innviðaráðuneytið

Rætt um sporvagna og skipulag á málfundi um almenningssamgöngur

Sporvagnar, svæðis- og samgönguskipulag og skýrsludrög um almenningssamgöngur á Íslandi voru umfjöllunarefni á fimmta málfundi samgönguráðs í gær. Fram kom meðal annars að sporvagnasamgöngur geta verið kostur jafnvel fyrir bæjarfélög með um 120-150 þúsund íbúa.

Fundur samgönguráðs um almenningssamgöngur.
Frá fundi samgönguráðs um almenningssamgöngur. Erindi fluttu Gunnar Eiterjord, Páll S. Brynjarsson og Manfred Bonz.

Manfred Bonz, fyrrverandi yfirmaður almenningsvagna í Stuttgart, greindi frá uppbyggingu kerfisins og þróun í vaxandi samkeppnisumhverfi meðal annars við einkabílinn. Sagði hann svarið við því vera betra leiðakerfi. Kerfið í Stuttgart þjónar tæplega 600 þúsund manna svæði í borginni og alls um 2,5 milljónum íbúa ef nágrannabyggðir eru taldar með. Farnar eru um 500 þúsund ferðir á dag um svæðið og lengd kerfisins er 860 km. Hlutur almenningssamgangna í Stuttgart hefur vaxið úr 16% árið 1976 í 22% 2005. Meðalferðahraði vagnanna er 26,2 km og sá hraðasti fer í 38 km. Bonz lagði ríka áherslu á nauðsyn gæða í þjónustunni og aðbúnaði í vögnunum

Fram kom í máli Bonz að sporvagnakerfi eru rekin í bæjum eins og Grenoble í Frakklandi þar sem íbúar eru um 158 þúsund og kerfið um 40 km langt, í Ulm og Heilbronn í Þýskalandi þar sem búa 121 þúsund manns í hvorri borg.

Gunnar Eiterjord, yfirmaður samgöngumála hjá Rogalandsfylki í Noregi en þar er Stavanger stærsti bærinn, ræddi samþætt svæðis- og samgönguskipulag í fylkinu. Almenningssamgöngukerfið var endurskipulagt 2004, leiðakerfið einfaldað, tíðni aukin og vagnar endurnýjaðir. Farþegafjöldinn jókst um 22% eða 2,8 milljónir farþega milli 2003 og 2007. Hann sagði tíðnina skipta höfuðmáli í þessu sambandi og þar kæmu lestarsamgöngur ekki síst til greina. Einnig sagði hann brýnt að styrkja miðborgarkjarna bæði hvað varðaði búsetu og atvinnutækifæri og að taka yrði almenningssamgöngur með í skipulag, bæði langtíma- og skammtímaskipulag.

Páll S. Brynjarsson, formaður vinnuhóps um almenningssamgöngur, sem ljúka mun störfum í næsta mánuði, greindi frá drögum að skýrslu hópsins. Var meðal verkefna hópsins að kanna hvernig megi byggja upp og gera almenningssamgöngur notendavænni og hvernig aðkomu ríkis og sveitarfélaga skuli háttað. Meðal leiða sem ræddar hefðu verið væri að skilgreina hver bæri ábyrgð á almenningssamgöngum innan sveitarfélaga, hvernig bæta mætti rekstrarumhverfi, gera þær notendavænni og endurskoða skipulag.

Páll nefndi nokkur sveitarfélög sem þegar rækju almenningssamgöngur, svo sem Akranes, Akureyri, Árborg, Ísafjörð, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Reykjanesbæ og Snæfellsbæ og fleiri hefðu það til athugunar. Hann sagði samanlagðan kostnað þessara sveitarfélaga hafa verið 152 milljónir árið 2006 og notendur verið um 540 þúsund. Kostnaður við Strætó bs. hefði árið 2006 verið 2,1 milljarður króna og farþegafjöldi 7,7 milljónir.

Páll sagði að ferðatími almenningsvagna væri lengri en einkabílsins og því þyrfti að breyta til dæmis með auknum forgangi og auka þyrfti gæði almenningssamgangna. Hann varpaði fram hvort ekki væri eðlilegt að skoða samhengi almenningssamgangna allt milli Borgarness og Árborgar að Reykjanesi meðtöldu og koma á samræmdu neti.

Í umræðum að loknum erindum var meðal annars varpað fram hvort hentugt gæti verið að nota jarðlestir; bent á að ímynd skipti miklu máli varðandi vilja almennings til að nýta almenningssamgöngur, huga yrði vel að samþættingu byggðar og almenningssamgangna og sinna markaðsmálum til að auka hlut þeirra og draga úr notkun einkabílsins.


Meðalferðatíminn 12 mínútur

Upplýsa má í lokin að í skýrslu Bjarna Reynarssonar landfræðins um ferðavenjur sumarið 2007 sem unnin var fyrir samgönguráð kemur meðal annars fram að meðalferðatími höfuðborgarbúa til vinnu sé 12 mínútur og meðalfjarlægð milli heimilis og vinnu séu 5,7 km sem gefur ferðahraðann 28,5 km. Íbúar höfuðborgarsvæðisins verja að meðaltali 45 mínútum á virkum degi í bíl. Þá kemur fram í drögunum að 2/3 hluti svarenda á höfuðborgarsvæðinu sé tilbúinn að skiptast á við nágranna eða vinnufélaga um að aka til vinnu og að áliti íbúa höfuðborgarsvæðisins sé best að leysa toppa í umferðarálagi með umbótum á stofnbrautakerfi, tíðari og ódýrari strætóferðum og sveigjanlegum vinnutíma.

Frá fundi samgönguráðs um almenningssamgöngur.
Um 60 manns sátu málfund samgönguráðs um almenningssamgöngur sem haldinn var í gær.

Léttlestarkerfi í Stuttgar er mikið notað.
Lestarkerfið í Stuttgart og nágrenni þykir hagkvæmt og veita góða þjónustu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum