Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2009 Innviðaráðuneytið

Engin banaslys í siglingum eða flugi 2008

Banaslysum í samgöngum fór fækkandi á síðasta ári. Þau voru 12 í umferðinni en ekkert í siglingum eða flugi. Talið er að þetta sé í fyrsta sinn frá landnámi sem enginn ferst á sjó og engir hafa látist í loftförum skráðum á Íslandi frá því í ágúst árið 2000.

Engir fórust í siglingum

Í frétt á vef Siglingastofnunar Íslands kemur fram að á síðustu öld hafi yfir fjögur þúsund manns drukknað í sjó, ám og vötnum og að banaslysum hafi farið mjög fækkandi á síðari hluta aldarinnar. Hefur sú þróun haldist síðan. Skýringar eru einkum taldar þær að skipakostur hefur batnað, öryggiskröfur eru meiri og sjómönnum hefur fækkað. Einnig hafa fræðslu og slysavarnir eflst og orðið til að breyta hugarfari sjófarenda.

Ekkert banaslys í flugi

Rannsóknarnefnd flugslysa hefur nýlega gefið út ársskýrslu fyrir 2007 og kemur þar meðal annars fram að nefndin vann að þrettán skýrslum vegna flugslysa eða alvarlegra flugatvika sem urðu árið 2007. Er það svipað og meðaltal síðustu 20 ára.

Árið 2007 bárust rannsóknarnefnd flugslysa tilkynningar um 554 frávik í flugi íslenskra loftfara hérlendis og erlendis, svo og í flugi erlendra loftfara um íslenska lögsögu og um íslenska flugstjórnarsvæðið. RNF skoðaði 54 þessara frávika nánar og voru 27 þeirra skilgreind sem flugslys, flugumferðaratvik eða alvarleg flugatvik og voru tekin til formlegrar rannsóknar. Árið 2006 var 41 mál tekið til rannsóknar, 23 árið 2005 og 41 árin 2004 og 2003 hvort um sig.

Engir hafa farist í slysum í loftförum skráðum á Íslandi allt frá árinu 2000.

Gerð er ítarleg grein fyrir starfi RNF í ársskýrslunni sem finna má á vef nefndarinnar.


12 banaslys í umferðinni

Í umferðinni voru 12 banaslys á síðasta ári. Aðeins tvisvar frá árinu 1967 þegar formleg skráning banaslysa hófst hafa færri látið lífið í umferðinni. Það var árið 1996 þegar 10 létust og 1968 en það ár var hægri umferð tekin upp og þá létust 8 manns.

Undanfarin 20 ár hafa að meðaltali 22 látið lífið í umferðinni á ári og á þeim tíma hafa alls 434 látist í umferðarslysum. Á vef Umferðarstofu má sjá samantekt um banaslys síðustu ára svo og ýmsa aðra tölfræði um umferðarslys.

Öryggisáætlanir leiðarljós

Í samgönguáætlun hverju sinni eru sérstakar áætlanir um öryggi í umferðinni og meðal sjófarenda. Þá er fyrsta flugöryggisáætlunin nú í smíðum á vegum samgönguráðuneytisins.

Í gildandi langtímaáætlun um öryggi sjófarenda er unnið að verkefnum í eftirtöldum fjórum málaflokkum: Menntun og þjálfun. Fræðsluefni og miðlun upplýsinga. Öryggisstjórnun. Rannsókna- og þróunarverkefni.

Í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda eru skilgreind þau markmið að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum fyrir árið 2016. Það markmið náðist árið 2007 og allt bendir til þess að það hafi aftur tekist árið 2008. Ekki er þó hægt að staðfesta það fyrr en fyrir liggja tölur frá öðrum þjóðum þar um.

Markmiðið með flugöryggisáætlun er að fækka slysum í almenningsflugi, koma í veg fyrir tvíverknað í aðgerðum og óskipulega markmiðssetningu og tryggja samvinnu flugiðnaðarins og stjórnvalda um sameiginleg öryggismarkmið. Settur er fram sameiginlegur rammi til þess að stuðla að frekara frumkvæði í flugöryggismálum, aðstoða við skipulagningu og veita leiðbeiningar við gerð flugöryggisstefnu og framtaksverkefna. Áætlunin setur fram tiltekna aðferðarfræði og leggur sérstaka áherslu á þau atriði sem nauðsynleg eru til að innleiða markmið Alþjóða flugmálastofnunarinnar um flugöryggi.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum