Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2009 Innviðaráðuneytið

Sprengingum lokið í Héðinsfjarðargöngum

Kristján L. Möller samgönguráðherra sprengdi á skírdag síðasta haftið í Héðinsfjarðargöngunum, leggnum milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar. Gert er ráð fyrir að göngin verði tekin í gagnið um mitt næsta ár.

Héðinsfjarðargöng - sprengtí gegn
Héðinsfjarðargöng - sprengt í gegn.

Verktakar við gangagerðina og tilheyrandi vegagerð eru tékkneska fyrirtækið Metrostav og Háfell. Göngin eru alls um 10,3 km að lengd í tveimur hlutum. Skrifað var undir samninga um verkið í maí 2006 og hefur verkið tafist nokkuð meðal annars vegna mikils vatnsaga í göngunum. Starfsmenn Metrostav hafa einkum sinnt sprengivinnu og þéttingum og en starfsmenn Háfells sjá um vegagerðina, byggðu brú í Héðinsfirði og verða þeir í meirihluta nú á lokaspretti verksins.

Eftir að sprengt hafði verið í gegn og meðan göngin voru hreinsuð óku samgönguráðherra og vegamálastjóri og fylgdarlið þeirra og gestir í boði verktaka yfir til Siglufjarðar og síðan í gegnum öll göngin til Ólafsfjarðar. Var þar efnt til athafnar þar sem Kristján L. Möller samgönguráðherra, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Vaclav Soukup, framkvæmdastjóri hjá Metrostav, Ermin Stehlik, deildarstjóri Metrostav, Jóhann Gunnar Stefánsson, framkvæmdastjóri Háfells og Þórir Kristinn Þórisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, fluttu ávörp.

Í ávarpi sínu rifjaði samgönguráðherra upp hversu íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hefðu búið lengi við erfiðar vegasamgöngur. Vegirnir um Siglufjarðarskarð og Lágheiði hefðu komist í gagnið seint á fimmta áratug síðustu aldar, vegur um Ólafsfjarðarmúla 1966, Strákagöngin hefðu verið opnuð 1967 og Múlagöngin 1990. Sagði hann Héðinsfjarðargöng hafa verið forsendu sameiningar sveitarfélaganna og þau myndu gera íbúum kleift að búa í öðrum firðinum og sækja vinnu í hinum og jafnvel víðar á Eyjafjarðarsvæðinu.

Þakkaði ráðherra í lokin starfsmönnum verktakanna og sagði þá hafa unnið mikilvægt verkefni við erfiðar aðstæður.

Fulltrúar Metrostav sögðu Héðinsfjarðargöng hafa verið gífurlega erfitt og krefjandi verkefni sem reynt hefði mjög á starfsmenn. Ekki síst hefði ískalt vatnið gert þeim erfitt fyrir og tafið vinnuna.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði merkan áfanga hafa náðst, þetta væri dagur verktakanna sem unnið hefðu við feikilega erfiðar aðstæður.

Samgönguráðherra ekur í gegnum Héðinsfjarðargöng      
Samgönguráðherra ók fyrstur í gegnum Héðinsfjarðargöng eftir að hafa sprengt síðasta haftið og leiðin hafði verið hreinsuð.      


 Myndataka í Héðinsfirði vegna gangnagerðar      
Myndataka í Héðinsfirði. Frá vinstri: Birgir Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og Birkir Jón Jónsson þingmaður.      

      

 Tékkneskir starfsmenn Metrostav voru ánægðir með áfangann
Tékkneskir starfsmenn Metrostav voru ánægðir með að hafa lokið þessum áfanga verksins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum