Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2010 Innviðaráðuneytið

Frumvarp til umferðarlaga samþykkt í ríkisstjórn

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að tillögu Ögmundar Jónassonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að senda þingflokkum stjórnarflokkanna frumvarp til nýrra umferðarlaga og leita samþykkis þeirra til að leggja það fram á Alþingi. Frumvarpið er alls 120 greinar og felur í sér ýmsar breytingar á núgildandi lögum.

Endurskoðað umferðarlagafrumvarp var samþykkt í ríkisstjórn.
Endurskoðað umferðarlagafrumvarp var samþykkt í ríkisstjórn.

Meðal nýmæla í frumvarpinu er að heimilt verður að lækka sektir vegna umferðarlagabrota um allt að 25% ef sakborningur getur sýnt fram á að hann hafi haft tekjur undir lágmarkslaunum. Einnig eru breytingar á ákvæðum um ökuréttindaflokka og gildistíma ökuskírteinis og verða þau mun ítarlegri en í núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að ökuskírteini sem gefin verða út  hér á landi eftir 1. janúar 2013 gildi í 15 ár, og að í lok árs 2032 verði nýtt kerfi endanlega komið til framkvæmda þannig að ein tegund ökuskírteina í gildi á öllu svæðinu.

Þá verður tilhögun ökunáms og ökukennslu breytt þannig að ökuskólar munu verða þungamiðjan í kennslu til ökuréttinda í stað sjálfstæðra ökukennara nú. Ökuleyfisaldur verður hækkaður úr 17 í 18 ár. Gert er ráð fyrir að aldursmörk verði hækkuð í áföngum til ársins 2015. Á árinu 2016 verði 18 ára aldursmarkið að fullu komið til framkvæmda miðað við að frumvarpið verði að lögum þann 1. janúar 2012.

Reglur um hámarkshraða utan þéttbýlis verða rýmkaðar og ökuhraði á akbraut með bundnu slitlagi og fleiri en einni akrein er samræmdur í 90 km á klst. Leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanns er lækkað í 0,2‰ en í núgildandi lögum er viðmiðið 0,5‰. Ekki er þó gert ráð fyrir ökuleyfissviptingu ef magn áfengis er milli 0,2‰ og 0,5‰ heldur einungis sekt.

Meðal annarra nýmæla frumvarpsins má nefna þessi:

  • Við samningu frumvarpsins var leitast við að móta það með umhverfissjónarmið í huga en 92% af útblæstri gróðurhúsaloftegunda í samgöngum hér á landi kemur frá vélknúnum ökutækjum. Lagt er til að sveitarstjórn verði heimilað að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að takmarka umferð eftir nánari reglum þegar mengunarmörk fara yfir leyfð viðmið. Jafnframt er lagt til að sveitarstjórn og Vegagerðinni, þegar um er að ræða þjóðveg, beri að taka ákvarðanir um útfærslu á sérreinum með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum, skilvirkni samgangna og umferðaröryggis vegfarenda. Sömu sjónarmið skulu höfð til hliðsjónar við ákvörðun um hraðamörk á vegum.
  • Heimildir Vegagerðarinnar til eftirlits með akstri ökutækja til farþega- og farmflutninga yfir 3,5 tonnum af leyfðri heildarþyngd eru auknar og gert er ráð fyrir heimildum Vegagerðarinnar til að leggja á gjald (stjórnvaldssektir) í stað sekta lögreglu. Þetta varðar eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna, búnaði, stærð og þyngd og hleðslu ökutækja.
  • Lagt er til að heimilt verði undir ákveðnum kringumstæðum (brot numið í löggæslumyndavél) að láta eiganda eða umráðamann ökutækis sæta refsiábyrgð á hlutlægum grundvelli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.e. án þess að sýnt sé fram á sök. Þetta á þó ekki við ef brot varðar punktum í ökuferilsskrá.
  • Sviptingartími vegna brota gegn ölvunarakstursákvæðum umferðarlaga verður að jafnaði lengdur, til dæmis verður lágmarkssviptingartími þrjú ár ef vínandamagn í blóði ökumanns er yfir 2‰ en í gildandi lögum er tveggja ára svipting. Við ítrekaðan ölvunarakstur þegar vínandamagn í blóði er yfir 1,2‰ skal svipting ekki vera skemmri en 5 ár. Jafnframt verður heimild til að grípa til fangelsisrefsingar aukin.
  • Í stað almennrar heimildar í lögunum til að ákvarða sektir vegna brota á umferðarlögum, eins og er í núgildandi lögum eru nú taldar upp þær greinar laganna sem varða sektum sé brotið gegn þeim.

Frumvarpsdrögin voru samin af nefnd sem fyrrverandi samgönguráðherra skipaði í nóvember 2007 og var undir stjórn Róberts R. Spanó. Nefndin skilaði drögum að frumvarpi í júlí 2009 sem sent var til umsagnar fjölmargra hagsmunaaðila og kynnt á vef ráðuneytisins. Fjöldi athugasemda barst og var frumvarpið kynnt aftur með breytingum. Í framhaldi af því var það lagt fram á Alþingi í mars 2009. Hlaut það ekki afgreiðslu og mun því verða lagt fram að nýju á 139. löggjafarþingi Alþingis hljóti það samþykki þingflokka ríkisstjórnarinnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum