Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2011 Innviðaráðuneytið

Ýmsar skýringar á fækkun banaslysa

Umferðaröryggisráð og innanríkisráðherra boðuðu í dag til blaðamannafundar um umferðaröryggismál. Kom þar fram í máli Ögmundar Jónassonar ráðherra að þrátt fyrir að átta hefðu látist  í banaslysum í umferðinni í fyrra væri það mun færri en látist hefðu mörg árin á undan.

Blaðamannafundur um umferðaröryggismál
Blaðamannafundur um umferðaröryggismál

Umferðaröryggisráð og innanríkisráðherra boðuðu í dag til blaðamannafundar um umferðaröryggismál. Kom þar fram í máli Ögmundar Jónassonar ráðherra að þrátt fyrir að átta hefðu látist  í banaslysum í umferðinni í fyrra væri það mun færri en látist hefðu mörg árin á undan.

Lagt var fram á fundinum margvíslegt efni um fjölda banaslysa síðustu árin með samanburði við önnur Norðurlönd, um hraðamælingar með stafrænum myndavélum og um hvernig meðalökuhraði að sumarlagi hefur lækkað undanfarin ár.

Fram kom í máli ráðherrans að ýmsar skýringar væru á færri banaslysum á síðasta ári en hin síðustu, meðal annars sú að hegðun okkar sem vegfarenda í umferðinni væri betri og aðrar skýringar sem hann nefndi væru betri vegir og umhverfi, betri ökukennsla og almenn fræðsla um umferðarmál. Þá hefði akstursbann nýliða í umferð sem verða uppvísir að umferðarlagabrotum einnig sitt að segja en þeir þurfa að sækja námskeið áður en þeir öðlast ökuréttindi á ný.

Á myndinni eru frá vinstri Haraldur Johannessen, Hreinn Haraldsson, Ögmundur Jónasson, Ragnhildur Hjaltadóttir og Karl Ragnars.

Blaðamannafundur um umferðaröryggismál

 

Hér fer á eftir samantekt úr máli ráðherra á fundinum í dag.

Sameining mála í nýju ráðuneyti

Fyrst vil ég minna á að nú þegar innanríkisráðuneytið hefur tekið til starfa verða öll umferðar- og samgöngumál undir sama hatti. Á ég þar við öryggismál, lögreglumálin og síðan samgönguframkvæmdir og eftirlit og stjórnsýsla á því sviði. Þetta þýðir að mínu mati að við getum enn betur stýrt þessum málum og er dæmi um hvernig við getum nýtt okkur samlegðaráhrif sem þessi sameining ráðuneyta býður uppá.

Banaslys

Þá vík ég að banaslysum. Á síðasta ári létust 8 manns í banaslysum. Það er vissulega 8 manns of mikið og ég endurtek það sem ég nefndi á umferðarþingi nú í haust að það á enginn að látast í umferðarslysi hjá okkur. Við viljum slysalausa umferð – á sama hátt og við viljum slysalaust flug og slysalausar siglingar.

Aðgerðir okkar til að draga úr slysum miðast við það að draga úr þeirri áhættu sem allar samgöngur hafa í för með sér. Samgöngur eru okkur nauðsynlegar og því er það ekki valkostur að sitja heima og gera ekkert og koma með því í veg fyrir öll slys.

Mun færri létust í banaslysum á síðasta ári en árið 2009 þegar þeir voru 17. Ef við förum aftar létust 12 árið 2008, 15 árið 2007 og 31 árið 2006 sem var hörmungarár. 

Af hverju fækkar banaslysum?

Við getum íhugað af hverju svo fá banaslys voru á síðasta ári. Það sem ræður úrslitum þegar slys eru annars vegar eru bíllinn, umhverfið (vegir og götur og umhverfi þeirra) og hegðun okkar allra í umferðinni, hvort sem við erum ökumenn, hjólreiðamenn eða gangandi. Ég hygg að á öllum þessum sviðum hafi orðið nokkrar umbætur. Ökumenn hafa bætt hegðun sína en á undanförnum árum hefur verið ötullega unnið að því að fræða vegfarendur um ábyrgð sína og jafnframt hefur nýliðum verið veittur aukinn stuðningur og aðhald. Bílar verða sífellt betri og búnir ýmiss konar tækni sem bjarga okkur ef eitthvað bregður útaf, og síðast en ekki síst hefur í seinni tíð verið lögð meiri áhersla á öryggismál við allar samgönguframkvæmdir.

Þannig hefur Vegagerðin í samræmi við umferðaröryggisáætlun til dæmis unnið æ meira að umbótum á vegakerfinu, lagað hættulega kafla sem greindir hafa verið út frá gæðamati vega og kafla þar sem slys hafa verið tíð.

Við getum einnig nefnt markvissari löggæslu og til dæmis hraðamyndavélarnar sem grípa okkur hér og þar, í jarðgöngum eða vegarköflum í þéttbýli eða dreifbýli og hert viðurlög hafa hér einnig verið aðhald. Það ásamt öðru hefur dregið úr hraðakstri.

Vorið 2007 tóku gildi ákvæði um akstursbann hjá nýliðum sem hafa bráðabirgðaökuskírteini ef þeir hafa gerst brotlegir. Fái þessir ökumenn fjóra refsipunkta verða þeir að sæta akstursbanni og fara á námskeið. Við þetta hefur snarlega fækkað þeim nýliðum sem gerast brotlegir og nefni ég sem dæmi að á tólf mánaða tímabili milli áranna 2006-2007 og 2007-2008 voru þeir 60% færri á síðara tímabilinu. Það er í raun ekki rétt að líta á þetta sem refsingu heldur er hér verið að hlúa að og fræða sérstaklega þá sem sýnt hafa að þeir eru ekki fullkomlega tilbúnir að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vera ökumaður. Við þetta bætist að ökunám hefur verið tekið fastari tökum og markviss fræðsla hefur verið aukin í grunnskólum og framhaldsskólum.

Fyrir utan þessi atriði má velta því fyrir sér hvort aðrir og utanaðkomandi þættir eins og hækkandi eldsneytisverð og minni umsvif í þjóðfélaginu hafi leitt til þess að streita og álag í umferðinni er minna en áður.

Viðhorfskönnun

Í viðhorfskönnun sem Umferðarstofa lét gera er áhugaverð spurning um hvað það er í fari annarra ökumanna sem veldur helst álagi hjá ökumönnum og nefndu 37% til dæmis farsímanotkun ökumanns og síðan kom of hægur akstur, stefnuljós ekki notuð og tillitsleysi annarra ökumanna. Þessi atriði tengjast áreiðanlega öll farsímanotkuninni því við vitum öll að um leið og ökumaður talar í síma undir stýri missir hann athyglina að nokkru og það kemur fram í akstrinum. Í þessu sambandi má kannski hugleiða hvort hækka eigi sekt við notkun síma án handfrjáls búnaðar en hún er í dag 5 þúsund krónur.

Banaslys í umferðinni voru á síðasta ári í sögulegu lágmarki. Samkvæmt bráðabirgðatölum virðast þau færri hér á landi en í öðrum löndum þegar við skoðum fjölda látinna á hverja 100 þúsund íbúa. Síðustu árin hafa verið miklar sveiflur í þessum tölum og við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda áfram að fækka slysunum. Við skulum halda árvekni okkar og stefna áfram að umferð án banaslysa.

Önnur jákvæð þróun er að fækkað hefur hraðakstursbrotum sem skráð voru með stafrænum myndavélum á nokkrum stöðum á landinu. Þau voru 22.160 á síðasta ári eða 974 færri en árið áður en þetta eru þó bráðabirgðatölur.

Hraði minnkar

Þá er líka vert að geta þess að ökuhraði að sumarlagi hefur lækkað. Þannig var meðalökuhraði á 10 stöðum á Hringveginum 93,4 km á klst. og hefur lækkað úr 97 km frá árinu 2004. Hlutfall ökumanna sem aka hraðar en 30 km yfir leyfilegum mörkum hefur sveiflast nokkuð síðustu árin, lækkað sumstaðar eins og í Eldhrauni og við Pétursey en hækkað við Hvassafell í Norðurárdal og Fagradal. Þessar tölur sjáið þið í gögnum ykkar.

Kostnaður við banaslys

Þá vil ég nefna að fyrirhugað er að kanna að nýju hver sé kostnaður við banaslys í umferðinni. Við höfum síðustu árin stuðst við nokkurra ára gamlar tölur og reiknað þær upp miðað við verðlagsþróun. Nú er mál til komið að reikna þetta út aftur frá grunni til að við getum gert okkur sem best grein fyrir honum.

Ábyrgð okkar

Að lokum vil ég minna á að ábyrgð okkar allra sem í umferðinni erum ræður alltaf mestu um hvernig okkur vegnar. Við verðum að temja okkur aga og ábyrgð í umferðinni. Á þann hátt getum við lagt okkar að mörkum til að draga úr áhættu og þar með slysahættu í umferðinni.

Stjórnvöld þurfa líka að halda vöku sinni og saman leggjumst við á árarnar og höldum áfram að bæta það sem á vantar.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum