Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2011 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra ræddi Vaðlaheiðargjöld og veggjöld

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra bauð fulltrúum sveitarstjórna innan Eyþings, fulltrúum Greiðrar leiðar og þingmönnum Norðausturkjördæmis á fund á Akureyri til að fjalla um Vaðlaheiðargöng og fjármögnunarleiðir við gerð þeirra.

Fundur á Akureyri um Vaðlaheiðargöng.
Fundur á Akureyri um Vaðlaheiðargöng.

Kringum 30 manns sátu fundinn þar sem farið var yfir framkvæmdina og mögulega fjármögnun hennar. Ögmundur ræddi í upphafi um þá stöðu ríkissjóðs að hann gæti ekki ráðist í samgönguverkefni umfram það sem samgönguáætlun heimilar nema með annars konar fjármögnun eins og veggjöldum. Minnti hann á það sem rætt hefði verið að fjármagna nokkur verkefni á suðvesturhorni landsins svo og Vaðlaheiðargöng með þessum hætti.

Fundur á Akureyri um Vaðlaheiðargöng.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fjallaði því næst um gerð Vaðlaheiðarganga, hvernig þau muni liggja og helstu tölur. Kom fram í máli hans að göngin verða rúmlega 7 km löng og að kostnaður sé ráðgerður um 9 milljarðar króna. Undirbúningsrannsóknir og hönnun hafa þegar farið fram og miðað er við að verkið yrði boðið út í tveimur áföngu, forvali og síðan hinu endanlega útboði.

Fundur á Akureyri um Vaðlaheiðargöng.

Fundarmenn tóku og þátt í umræðum og kom fram að fulltrúar sveitarfélaga hafa áhuga á að verkinu verði hrint i framkvæmd, þeir hefðu þegar setið nokkra fundi og lögðu áherslu á samstöðu bæði innan sveitarfélaga og við einkaaðila sem komið hafa við sögu undirbúnings.

Í lok fundar lýsti Ögmundur Jónasson því yfir að undirbúningi verksins yrði haldið áfram og næstu áfangar væru að ljúka samningum og undirbúa forval og taka síðan næstu skref samkvæmt því.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum