Hoppa yfir valmynd
19. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Útskrift frá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Útskriftarhópurinn  - mynd

Fjórtán nemar útskrifuðust frá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku eftir sex mánaða nám á Íslandi. Heildarfjöldi nemenda skólans frá upphafi er nú kominn yfir eitt hundrað en skólinn hóf starfsemi árið 2007. Að þessu sinni útskrifuðust nemendur frá átta þjóðríkjum, flestir frá Gana og Mongólíu, þrír frá hvoru landi, tveir frá bæði Úganda og Lesótó, og einn frá Malaví, Eþíópíu, Níger og Úsbekistan, alls tíu karlar og fjórar konur.

Markmið Landgræðsluskólans er að byggja upp færni sérfræðinga frá þróunarlöndum í landgræðslu, umhverfisstjórnun og sjálfbærri landnýtingu. Þetta er gert með því að þjálfa sérfræðinga sem starfa við landgræðslu- og landnýtingarmál í samstarfslöndum Landgræðsluskólans í Afríku og Mið-Asíu. Allir nemendurnir hafa háskólagráðu sem tengist viðfangsefnum skólans og starfa við stofnanir í heimalandi sínu.

Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, ávarpaði útskriftarnemana að þessu tilefni og sagði meðal annars í ávarpi sínu að nemarnir hefðu á síðustu sex mánuðum fengið tækifæri til að læra af kennurum sínum og samnemendum, en einnig hefðu þeir komið til Íslands með þekkingu og reynslu sem þeir hefðu deilt með öðrum. Útskriftarnemarnir fjórtán væru nú orðnir hluti af miklu stærra tengslaneti fræðamanna, stefnumótandi aðila og sérfræðinga. „Þið deilið öll sameiginlegri sýn og markmiði: að stýra landnýtingu á sjálfbæran hátt þannig að auðlindin nýtist komandi kynslóðum fremur en til skamms tíma; að endurheimta svæði sem áður voru horfin og ónothæf; að breyta viðhorfum til náttúrunnar og hvernig hún samtvinnast inn í öll samfélög,“ sagði Sturla.

Hann minnti á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamninginn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, sem hann sagði viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og baráttunnar gegn lofslagsbreytingum.

Landgræðsluskólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Skólinn er hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og einn fjögurra háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa hér á landi.

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum