Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2018 Innviðaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um köfun í atvinnuskyni til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um köfun í atvinnuskyni. Unnt er að senda umsagnir um drögin til 30. janúar nk. og skulu þau send á netfangið [email protected].

Markmið laganna er að tryggja öryggi við köfun með því að gera tilteknar kröfur til köfunar í atvinnuskyni og kennslu í köfun. Er frumvarpið afrakstur endurskoðunar ráðuneytisins og Samgöngustofu á gildandi lögum. Leitast er við að skýra og uppfæra laga- og regluverk köfunar hér á landi.

Köfunarstarfsemi hefur aukist til muna hér á landi undanfarin ár, sérstaklega með auknum straumi ferðamanna. Alvarleg slys við köfun hafa leitt til umræðu um lög og reglur sem gilda um köfun og sér í lagi hvaða eftirlit er með starfseminni.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

  • Lagt er til að mælt verði skýrlega fyrir um gildissvið í lögum, þ.e. að þau gildi um köfun í atvinnuskyni en ekki áhugaköfun nema að því er varðar kennslu í áhugaköfun.
  • Meðal nýmæla eru ákvæði er lúta að kennslu bæði í atvinnuköfun og áhugaköfun. Lagt er til að mælt verði sérstaklega fyrir um nám í köfun hér á landi og hvernig fara skuli með viðurkenningu náms til köfunar í atvinnuskyni sem fram fer erlendis.
  • Lagt er til að ákvæði um viðurkenningu og eftirlit með köfunarbúnaði verði felld brott en eftirlit með persónuhlífum, eins og köfunarbúnaði, fellur undir velferðarráðuneytið.
  • Lagt er til að ákvæði um skírteini til köfunar í atvinnuskyni, sem og skilyrði fyrir útgáfu þeirra, séu gerð ítarlegri og skýrari.
  • Lagt er til að rannsókn slysa við köfun í atvinnuskyni muni að nýju heyra undir rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Ítrekað er að unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til 30. janúar nk. og skulu þau send á netfangið [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum