Hoppa yfir valmynd
22. mars 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stórsókn í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum með áherslu á friðlýst svæði og fjölgun áfangastaða

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í dag um úthlutun á ríflega 2,8 milljörðum króna til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og öðrum ferðamannastöðum.

Annars vegar er um að ræða tæplega 2,1 milljarða króna úthlutun vegna þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018 – 2020. Verkefnaáætlunin tekur m.a. til friðlýstra svæða og fjölsóttra staða í eigu íslenska ríkisins, valinna svæða sveitarfélaga auk landvörslu. Þá er fé veitt til óstaðbundinna áhersluverkefna. Alls er fjármagni veitt á 71 stað og eina gönguleið til fjölbreyttra verkefna, með sérstaka áherslu á vernd náttúru, minjavernd, bætt öryggi, svo og bætta aðstöðu fyrir gesti á þessu stöðum. 

Hins vegar er um að ræða 722 milljóna króna úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2018. Tekið skal fram að gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóðurinn úthluti alls 2,2 milljörðum á árunum 2018 til 2020 en úthlutað er árlega. Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðurinn styrkir ekki ferðamannastaði í eigu ríkisins og er það í samræmi við breytta löggjöf um sjóðinn. Alls hljóta 56 staðir styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Sérstök áhersla er lögð á að fjölga viðkomustöðum ferðamanna  til að stuðla að því að álag minnki á fjölsóttum stöðum og lýtur 21 verkefni að þessu markmiði.   

Sameiginlega munu ráðherrarnir koma á fót starfshópi sem hefur það verkefni að efla fagþekkingu þeirra aðila sem vinna að uppbyggingu innviða með það að markmiði að auka gæði og hagkvæmni uppbyggingarinnar og draga úr hættu á ónauðsynlegu raski. Í starfshópnum verða fulltrúar þeirra fjölmörgu opinberu stofnana sem koma að uppbyggingu innviða sem og Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Gert er ráð fyrir að verja 60 milljónum króna til þessa verkefnis á næstu þremur árum.

Með úthlutuninni er blásið til sóknar í uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum og öðrum ferðamannastöðum í náttúru Íslands. Þá er þetta í fyrsta sinn sem gerðar eru heildstæðar áætlanir til margra ára þegar kemur að mati á uppbyggingarþörf þessara svæða og úthlutun fjármuna vegna hennar.

„Hér eru stigin stór og mikilvæg skref í náttúruvernd. Með uppbyggingu á aðstöðu og umhverfi ferðamannastaða, ekki síst á friðlýstum svæðum, og aukinni landvörslu stuðlum við að meiri vernd náttúrunnar sem er helsta forsenda eins af grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar, ferðaþjónustunnar. Til verða græn störf og vonandi ánægðari ferðamenn, en fræðslustarf landvarða ýtir undir slíkt. Að auki sameinumst við ráðherrarnir um að setja árlega fjármagn til að efla fagþekkingu þeirra sem vinna að uppbyggingu innviða, þannig að þeir megi falla sem best að þeirri náttúru sem þeim er ætlað að vernda.“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Ferðaþjónusta færir okkur mikinn og margvíslegan ávinning en á sama tíma þurfum við að lágmarka umhverfislegt fótspor hennar með innviðauppbyggingu og stýringu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála. „Stjórnvöld eru hér að setja meiri kraft í uppbyggingu á ferðamannastöðum en við höfum áður séð, þegar lögð er saman efling Framkvæmdasjóðsins frá fyrra ári og tilkoma nýrrar Landsáætlunar um innviðauppbyggingu. Fyrir utan aukið fjármagn höfum við einnig skerpt á stefnumótun og verkaskiptingu þannig að ég er sannfærð um að við séum hér að stíga skynsamleg skref sem muni skila umtalsverðum árangri.“


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum