Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á jafnréttisráðstefnu í Svíþjóð

Mikilvægt hlutverk kvenna í friðarumleitunum og þáttur karlmanna í jafnréttisumræðunni var á meðal þess sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ræddi á jafnréttisráðstefnu í Stokkhólmi sem haldin var í boði utanríkisráðherra Svíþjóðar.
 
Utanríkisráðherra ræddi einnig stöðu jafnréttismála á Íslandi og þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á umliðnum árum, meðal annars feðraorlofið, dagvistun barna og jafnlaunavottun. Auk þess undirstrikaði hann hve mikil áhrif fyrirmyndir á borð við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, geti haft.
 
"Jafnréttismálin eru samþætt okkar utanríkisstefnu og það er sérstaklega ánægjulegt að horft sé til Íslands í leiðandi hlutverki á þessu sviði. Þar viljum við sannarlega vera, og það þýðir að við þurfum að halda áfram að miðla af reynslu okkar og gera enn betur heima við," segir Guðlaugur Þór.

Jafnréttisráðstefna í Svíþjóð

 
Meðal þátttakenda á ráðstefnunni voru, auk Guðlaugs Þórs, utanríkisráðherrar Noregs, Svíþjóðar og Eistlands, yfirmaður Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, framkvæmdastýra UN Women, jafnréttis- og mannréttindaráðherra Sómalíu og jafnréttisráðherra Úkraínu.
 
Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna hefst í Svíþjóð í kvöld.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum