Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2018 Utanríkisráðuneytið

Árangursríkum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins lokið

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra ásamt fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu - mynd

Leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins lauk nú síðdegis en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra sóttu fundinn.

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins áttu einnig fund með utanríkisráðherrum Íraks, Túnis og Jórdaníu og var sjónum beint að öryggisáskorunum á suðurjaðri bandalagsins, en á leiðtogafundinum var meðal annars ákveðið að setja á fót nýtt þjálfunarverkefni í Írak til að stuðla að uppbyggingu í landinu. Munu íslensk stjórnvöld áfram styðja við írösk stjórnvöld við sprengjueyðingu sem gerir þeim betur kleift að greiða fyrir heimkomu flóttafólks á fyrrum átakasvæði. Í máli sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á samstarf við aðrar alþjóðastofnanir á svæðinu og að horfa heildstætt á þær öryggisáskoranir sem blasa við ríkjum á svæðinu. Utanríkisráðherra tók sömuleiðis þátt í ráðstefnu ríkja sem taka þátt í baráttunni gegn ISIL hryðjuverkasamtökunum.

Utanríkisráðherra átti ennfremur tvíhliða fundi til hliðar við leiðtogafundinn. Á fundi með utanríkisráðherra Makedóníu, Nikola Dimitrov, voru aðildarviðræður Makedóníu við Atlantshafsbandalagið í kjölfar nýlegs samkomulags við Grikkland vegna nafnamálsins svokallaða einkum til umræðu. Þá fundaði Guðlaugur Þór með nýjum utanríkisráðherra Ítalíu, Enzo Milanesi, um öryggis- og varnarmál, en Ítalía mun sinna loftrýmiseftirliti við Ísland í haust. Einnig ræddu ráðherrarnir stöðu mála í Evrópu og norðurslóðamál, en Ítalía er áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu sem Ísland veitir formennsku á næsta ári. Tvíhliða samskipti ríkjanna voru einnig til umræðu, þ.m.t. samstarf á sviði jarðhitanýtingar.

"Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins var árangursríkur og hreinskiptinn, og undirstrikaði enn á ný samstöðu bandalagsríkja á tímum óvissu og margvíslegra áskorana í öryggis- og alþjóðamálum. Framlög Íslands til okkar eigin og sameiginlegra varna, sem farið hafa vaxandi á undanförnum árum, er vel metið og Ísland er og verður traustur og trúverðugur bandamaður í þeim verkefnum sem framundan eru," segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Fréttatilkynningar forsætisráðuneytisins um fundinn:
Leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel lokið
Forsætisráðherra sótti leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins

Helstu yfirlýsingar fundarins er að finna á vef Atlantshafsbandalagsins.

  • Utanríkisráðherrar Íslands og Ítalíu, Enzo Milanesi - mynd
  • Utanríkisráðherrar Íslands og Úkraínu, Nikola Dimitrov - mynd
  • Utanríkisráðherra ræðir við varaframkvæmdarstjóra Atlantshafsbandalagsins - mynd
  • Utanríkisráðherrakvöldverður Atlantshafsbandalagsins - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum