Hoppa yfir valmynd
14. september 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fyrstu friðlýsingar rammaáætlunar

Fyrstu friðlýsingar rammaáætlunar - myndJohannes Jansson/norden.org
Umhverfisstofnun hefur lagt fram til kynningar tillögur að friðlýsingu þriggja svæða á hálendinu á grunni flokkunar þeirra í verndarflokk rammaáætlunar. Þau taka til Hólmsár, Tungnaár, Jökulfalls og Hvítár. Þetta er í fyrsta skipti sem sendar eru út til umsagnar tillögur að friðlýsingum einvörðungu á grunni rammaáætlunar.

„Þetta er afar mikilvægt skref sem hér er stigið í náttúruvernd á Íslandi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Svæðin þrjú eru öll í verndarflokki rammaáætlunar samkvæmt samþykkt Alþingis frá árinu 2013. Þau ber því að friðlýsa gegn orkunýtingu. Unnið er að því, sem og friðlýsingum fleiri svæða í verndarflokki.

„Það er ánægjulegt að sjá fyrstu svæðin send út til kynningar nú í dag. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um sérstakt átak í friðlýsingum, meðal annars friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar en líka svæða á eldri náttúruverndaráætlunum. Þessar friðlýsingar hafa verið samþykktar af Alþingi en hafa enn ekki náð fram að ganga,“ segir Guðmundur Ingi.

Stefnt er að því á næstu vikum að leggja fram til kynningar önnur friðlýsingaráform sem falla undir verndarflokk rammaáætlunar. Frestur til athugasemda við tillögurnar sem auglýstar voru í morgun hjá Umhverfisstofnun til og með 14. desember.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum