Hoppa yfir valmynd
21. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Sjálfbærni leiðarljós í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu

Utanríkisráðherra flutti lokaávarp á Hringborði norðurslóða - mynd

Sjálfbærni verður leiðarljós í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem hefst á næsta ári og málefni hafsins, loftslagsmál og vistvænar lausnir í orkumálum og lífshættir íbúa norðurskautsins verða meðal áhersluatriða Íslands á formennskutímanum. Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, sem hélt lokaræðu Hringborðs norðurslóða sem haldið var hér á landi í sjötta skipti og lauk nú síðdegis.

Í ræðu sinni kom Guðlaugur Þór einnig inn á stóraukið vægi norðurslóða í alþjóðastjórnmálum samhliða loftslagsbreytingum, og greindi frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að sporna við og aðlagast áhrifum þeirra. Utanríkisráðherra lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að viðhalda stöðugleika og friðsæld á norðurslóðum og innan Norðurskautsráðsins.

"Við stöndum frammi fyrir margvíslegum áskorunum, en ég er bjartsýnn á framtíð norðurslóða. Ef ég ætti að velja hugtök sem mestu máli skiptu fyrir þróun þessa heimshluta þá kæmu friður, stöðugleiki og sjálfbær þróun strax upp í hugann. Það er ekki einungis í okkar hag að búa þannig um hnútana, heldur höfum við öll ráð og getu til að tryggja sjálfbærni og velmegun á norðurslóð," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson í lok ræðu sinnar.

Ávarp ráðherra

 

Arctic Circle 2018: ræða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, birt af skrifstofu Hringborðs norðurslóða

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum