Hoppa yfir valmynd
21. desember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áform um friðlýsingar svæðis í Þjórsárdal og Reykjatorfunnar í Ölfusi

Gjáin í Þjórsárdal - myndHugi Ólafsson

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um friðlýsingu tveggja svæða. Annað er í Þjórsárdal og hitt er Reykjatorfan í Ölfusi. Áformin eru annars vegar kynnt í samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahrepp og forsætisráðuneytið og hins vegar í samstarfi við sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbæ og umráðendur ríkisjarða. Um er að ræða fyrstu friðlýsingar sem falla undir viðkvæm svæði undir álagi ferðamanna í sérstöku átaki í friðlýsingum, í samræmi við áherslur í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Svæðið í Þjórsárdal nær til m.a. Gjárinnar, Háafoss og nágrennis. Gjáin hefur verið vinsæll ferðamannastaður og er helsta aðdráttaraflið óröskuð náttúra og friðsæld. Háifoss, Glanni og Stöng eru einnig fjölsóttir ferðamannastaðir í Þjórsárdal. Friðlýsingunni er ætlað að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Tekið er fram að ef um er að ræða svæði þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins skal friðlýsingin jafnframt miða að því að tryggja að þeim verði haldið við.

Reykjatorfan liggur upp af Hveragerði innan marka sveitarfélagsins Ölfus. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, bergganga, brota og framhlaupa. Innan marka svæðisins eru tveir dalir, Reykjadalur og Grænsdalur. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Reykjadal á hverju ári en svæðið er meðal vinsælustu útivistarsvæða í Ölfusi og er undir miklu álagi. Grænsdalur liggur samsíða Reykjadal. Hann er vel gróinn og þar er að finna gróskumikið votlendi og jarðhitasvæði. Er þar m.a. að finna mýrarhveravist, móahveravist og hveraleirsvist auk jarðhitalækja. Svæðið er að mestu óraskað og ekkert stígakerfi er til staðar til að stýra umferð gesta frá viðkvæmum svæðum og þeim sem beinlínis er hættulegt að fara um vegna jarðhita.

„Með vaxandi fjölda ferðamanna hér á landi hafa ákveðnir staðir óhjákvæmilega orðið fyrir meira álagi en aðrir. Uppbygging innviða og stýring ferðamanna er afar brýn á slíkum svæðum og um leið að stutt sé við svæðin með landvörslu. Friðlýsing er þar lykilatriði því þannig er hægt að takast á við þessi krefjandi verkefni með heildstæðum hætti. Það er því ánægjulegt að sjá framsýni Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sveitarfélagsins Ölfuss, Hveragerðisbæjar og heimafólks í málefnum þessara mikilvægu náttúruperla í Þjórsársdal og í Reykjadal,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Nánari upplýsingar og tillögu að friðlýsingarmörkum má sjá á vef Umhverfisstofnunar.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega.

Nánari upplýsingar um áform um friðlýsingu svæðis í Þjórsárdal á vef Umhverfisstofnunar

Nánari upplýsingar um áform um friðlýsingu Reykjatofunnar á vef Umhverfisstofnunar


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum