Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu Íslands og skráningu jarðminja

Frá undirritun samningsins. F.v. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR. - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa gert samning um átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu Íslands og skráningu jarðminja.

Samræmd jarðfræðikort í nákvæmum mælikvarða, kortlagning jarðminja og skráning þeirra er mikilvæg forsenda vandaðrar áætlanagerðar og ákvarðanatöku í umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmálum um land allt. Mikil vöntun hefur verið á jarðfræðikortum í stórum mælikvarða af Íslandi og kveður samningurinn á um útgáfu jarðfræðikorta a.m.k. þriggja landsvæða í mælikvarðanum 1:100.000 á samningstímanum. Þá náist áfangar í kortlagningu a.m.k. tveggja svæða til viðbótar auk þess sem mótuð verði framtíðarstefna um kortlagningu landsins alls.

Náttúrufræðistofnun hefur hafið skráningu á jarðminjum í þar til gerðan gagnagrunn. Fyrir liggur hjá stofnuninni að halda þeirri skráningu áfram þannig að nýta megi hann til að meta verndargildi jarðminjanna á faglegum forsendum. Gerir samningurinn ráð fyrir skráningu 250-300 jarðminja á samningstímanum.

Jarðfræðikortin og upplýsingar um jarðminjar, sem verða til vegna samningsins, verða gjaldfrjáls á rafrænu formi og þannig aðgengileg öllum en gert er ráð fyrir að pappírsútgáfa verði aðgengileg gegn gjaldi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum