Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á lögum um loftslagsmál í samráðsferli

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um loftslagsmál. Frumvarpið felur m.a. í sér breytingar á ákvæðum er varða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, losunarbókhald og loftslagssjóð og sett eru fram ný ákvæði um aðlögun að loftslagsbreytingum, loftslagsstefnu stjórnvalda og skýrslugjöf um áhrif loftslagsbreytinga.

Í frumvarpinu er hnykkt á því að aðgerðaáætlun sé helsta tæki stjórnvalda til að tryggja að Ísland nái losunarmarkmiðum samkvæmt Parísarsamningnum og markmiðum um kolefnishlutleysi. Þá eru sett inn ný ákvæði um áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum í samræmi við ákvæði Parísarsamningsins. Í frumvarpinu er einnig lagður til nýr kafli sem fjallar um loftslagsráð og hlutverk þess og að skylt verði að setja loftslagsstefnu stjórnvalda með því að Stjórnarráðið og ríkisstofnanir setji sér loftslagsstefnu. Þá eru ákvæði um skýrslugerð um áhrif loftslagsbreytinga sem ætlað er að aðstoða stjórnvöld og samfélag að búa sig undir afleiðingar loftslagsbreytinga.

Að auki eru lagðar til breytingar á ákvæðum um losunarbókhald Íslands og ábyrgð á gagnaskilum þar að lútandi sem og á ákvæðum um loftslagssjóð. Sett eru nánari ákvæði um loftslagssjóð og hlutverk hans.

Umsögnum um frumvarpsdrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 14. febrúar næstkomandi.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 í Samráðsgátt 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum