Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áform um friðlýsingu Goðafoss í kynningu

Goðafoss - myndBergþóra Njála

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit. Áformin eru kynnt í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið Þingeyjarsveit.

Goðafoss er í Skjálfandafljóti í Bárðardal og er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og er ásýnd hans fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Goðafoss er 9-17 m hár og um 30 m breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrútey, en hún afmarkast af Hrúteyjarkvísl sem greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss, en sameinast fljótinu aftur alllangt neðar.

Nafn sitt dregur Goðafoss af því að Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði mun hafa varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn þegar honum var falið að ná sáttum milli heiðinna manna og kristinna, og ákvað að taka upp nýjan sið.

Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár séu kynnt sérstaklega.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. september 2019. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið [email protected] eða með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum