Hoppa yfir valmynd
5. desember 2019 Innviðaráðuneytið

Helstu nýmæli i frumvarpi um leigubifreiðaakstur

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti í gærkvöldi á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um leigubifreiðaakstur. Um er að ræða heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar sem sett voru árið 2001. Markmið frumvarpsins er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu. Þá er nýjum lögum ætlað að tryggja að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Verði frumvarpið að lögum tekur það gildi 1. júlí 2021.

Heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst með skipun starfshóps um endurskoðun á þeim reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur á Íslandi í október 2017. Starfshópurinn skilaði tillögum í skýrslu í mars 2018. Frumvarpið byggir að meginstefnu til á tillögum þeim sem starfshópurinn lagði til í skýrslu sinni. Þá hafa umsagnir sem bárust um efni skýrslunnar og frumvarpsdrög á fyrri stigum verið hafðar til hliðsjónar. Frumvarp var tvívegis lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda og bárust umsagnir í bæði skiptin frá hagsmunaaðilum.

Helstu breytingar

  1. Fjöldatakmarkanir afnumdar
    Lagt er til að fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa verða afnumdar og því getur hver sá sem uppfyllir skilyrði laganna fengið útgefið leyfi. Með frumvarpinu er lagt til að til verði tvenns konar leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur, rekstrarleyfi og atvinnuleyfi. Annars vegar rekstrarleyfi sem veitir leyfishafa rétt til að aka og reka leigubifreið. Rekstrarleyfishafi skal vera skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðarinnar. Hins vegar atvinnuleyfi sem veitir leyfishafa rétt til að aka leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa. Kveðið er á um að rekstrarleyfishafi þurfi að hafa lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu, virka starfsstöð á Íslandi og hafi fullnægjandi fjárhagsstöðu.

  2. Stöðvarskylda afnumin
    Lagt er til að skylda til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð verði afnumin og sömuleiðis ákvæði um takmörkunarsvæði. Samkvæmt gildandi lögum eiga leigubifreiðastjórar á takmörkunarsvæðum að vera skráðir á leigubifreiðastöð og selja þjónustu sína í gegnum stöðina. Starfshópur um heildarendurskoðun regluverks um leigubifreiðar komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu frá mars 2018 að ekki verði hjá því komist að falla frá lögbundinni stöðvarskyldu í núverandi mynd, m.a. með tilliti til álits ESA um leigubifreiðamarkaðinn í Noregi.

  3. Skýrari skilyrði fyrir að starfa sem bílstjóri
    Gerðar verða breytingar á skilyrðum til að mega starfa sem leigubifreiðastjóri og þau gerð skýrari. Gildandi lög gera ráð fyrir því að umsækjandi megi ekki hafa verið dæmdur til refsivistar en frumvarpið miðar við að umsækjandi megi ekki hafa gerst sekur um tiltekna refsiverða háttsemi. Í framkvæmd hefur verið óskað eftir því að umsækjendur skili inn hefðbundnu sakavottorði, en slík vottorð tiltaka brot lengst fimm ár aftur í tímann. Nú er sérstaklega tiltekið að hafi brot varðað við líkamsmeiðingakafla hegningarlaga skuli ekki veita leyfi fyrr en að tíu árum liðnum og að aldrei skuli veita leyf varði brot við kynferðisbrotakafla. Loks er gerð sú breyting að hægt verður svipta einstakling leyfi uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði laga.


  4. Breytt skilyrði fyrir leigubifreiðastöðvar
    Skilyrði sem handhafar starfsleyfis leigubifreiðastöðva þurfa að uppfylla eru gerð skýrari. Kveðið er á um að aðili þurfi að hafa lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu, virka starfsstöð á Íslandi og hafi fullnægjandi fjárhagsstöðu. Þá skal fyrirsvarsmaður stöðvar uppfylla skilyrði um starfshæfni og gott orðspor sem gerð eru til rekstrarleyfishafa. 


  5. Breyttar skyldur rekstraraðila leigubifreiða
    Frumvarpið leggur nýjar skyldur á rekstrarleyfishafa, m.a. að halda rafræna skrá yfir upphafs- og endastöð hverrar seldrar ferðar um gervihnött og um staðsetningu meðan á ferðinni stendur. Þetta er gert til að auka öryggi bæði leigubifreiðastjóra og farþega. Rekstrarleyfishafa er heimilt að framselja þessa skyldur auk annarra tiltekinna skyldna til leigubifreiðastöðvar. Þannig er líklegt að margir sjái hag í því að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð. 


  6. Auknar heimildir Samgöngustofu
    Samgöngustofu er veitt heimild að krefja leyfishafa um allar þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem nauðsynlegar eru til að hafa eftirlit með því að farið sé að lögum.


  7. Breytingar á reglum um gjaldmæla og verðskrár
    Gerðar eru breytingar á reglum um gjaldmæla og verðskrár. Allar leigubifreiðar sem selja þjónustu miðað við ekna vegalengd í metrum talið eða þeim tíma sem ferð tekur (hefðbundin ferð í leigubifreið) skulu búnar gjaldmælum löggiltum af Neytendastofu. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir þær bifreiðar sem seldar eru á leigu fyrir fyrirfram ákveðið heildargjald þurfi ekki að vera búnar slíkum gjaldmælum. Í þeim tilvikum skal forsenda verðlagningar þó liggja fyrir í verðskrá.


  8. Afnám skyldu um lágmarksnýtingu leyfis (skylda til að hafa akstur að aðalatvinnu)
    Lagt er til að afnema skilyrði um lágmarksnýtingu atvinnuleyfis sem í reynd hefur falið í sér skyldu til að hafa akstur að aðalatvinnu. Afnám lágmarksnýtingar leyfis er til þess fallið að veita kynjum jafnara aðgengi í stéttina. Einnig var litið til samkeppnissjónarmiða. Í áliti Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2007 kemur m.a. fram að eftirlitið telji að falla þurfi frá þeirri kröfu að akstur leigubifreiðar sé aðalatvinna þeirra sem hann stunda. Skilyrðið sé samkeppnishindrandi og takmarki aðgang að leigubifreiðaakstri.


  9. Um farveitur
    Með frumvarpinu eru stigin ákveðin skref sem gera farveitum sem nýta nútíma tækni til viðskipta kleift að hefja starfsemi hér á landi. Farveitur þurfa að fullnægja öllum skilyrðum, sem leigubifreiðastöðvum verður gert að fullnægja og með sama hætti þurfa bílstjórar sem bjóða þjónustu sína hjá farveitum að uppfylla skilyrði leigubifreiðalöggjafarinnar og hafa gilt rekstrarleyfi og eftir atvikum atvinnuleyfi. Sem dæmi má nefna þyrftu Uber eða Lyft að vera með fullgilt starfsleyfi leigubifreiðastöðvar og hafa starfsstöð hér á landi í samræmi við ákvæði í drögum að frumvarpinu. Fjallað er nánar um farveitur í greinargerð frumvarpsins í kafla 2.3.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum