Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýir hvatar til að styrkja skattalegt umhverfi þriðja geirans verði lögfestir

Útvíkka ætti skattalega hvata og lögfesta nýja þegar kemur að starfsemi þriðja geirans. Þetta eru niðurstöður starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um skattalegt umhverfi þessarar starfsemi, sem m.a. snýr að íþróttafélögum, björgunarsveitum, góðgerðarfélögum og mannúðarsamtökum. Markmið vinnunnar var að leggja fram tillögur til að styrkja skattalegt umhverfi þriðja geirans og hefur starfshópurinn skilað skýrslu til ráðherra.

Einkum var horft til þess í vinnu hópsins að finna leiðir til þess að auka skattalega hvata gefenda til lögaðila sem starfa að almannaheillum, styrkja starfsemi þeirra lögaðila sem starfa að almannaheillum með skattalegum ívilnunum og efla og styrkja skattalega umgjörð og skráningu slíkra lögaðila hjá Skattinum, m.a. með skráningu í almannaheillafélagaskrá. 

Alþjóðlegur samanburður leiddi í ljós að víðast hvar í nágrannaríkjum okkar væru skattalegir hvatar víðtækari fyrir gefendur vegna fjárframlaga eða annarra framlaga til slíkrar starfsemi. Auk þess væru slíkir hvatar víðtækari fyrir þiggjendur slíkra framlaga. Var það mat starfshópsins að tækifæri væru til þess að útvíkka skattalega hvata, annars vegar fyrir gefendur og hins vegar fyrir þau félög sem teljast til almannaheilla.

Auk þess var það mat starfshópsins að rétt væri að nýir skattalegir hvatar yrðu lögfestir til að stuðla enn frekar að eflingu þeirrar mikilvægu starfsemi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann.

Með auknum skattalegum hvötum fyrir starfsemi til almannaheilla og framlaga til slíkrar starfsemi munu skattaleg og rekstrarleg skilyrði slíkrar starfsemi verða efld og færast nær skattalegum ívilnunum í nágrannaríkjum okkar.

Helstu tillögur starfshópsins:

  • Erfðafjárskattur. Að kannað verði hvort undanþága félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum frá greiðslu erfðafjárskatts af dánargjöfum geti tekið til lögaðila í öðrum félagaformum.
  • Fasteignaskattur. Að kannað verði að veita undanþágu, lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá lögaðilum sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum.
  • Fjármagnstekjuskattur. Að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínum samkvæmt samþykktum sínum verði undanþegnir greiðslu tekjuskatts af fjármagnstekjum.
  • Stimpilgjald. Að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla verði undanþegnir, að öllu leyti eða að hluta, frá greiðslu stimpilgjalds af kaupsamningum sem þeir eru aðilar að.
  • Stuðningur vegna útlagðs byggingarkostnaðar. Að þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla og hlotið hafa staðfestingu frá Skattinum í kjölfar skráningar á almannaheillafélagaskrá verði veitt heimild til að óska eftir fjárstuðningi af útlögðum kostnaði upp að ákveðnu hámarki vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á mannvirki undir starfsemi til almannaheilla, að uppfylltum ítarlegum skilyrðum.
  • Tekjuskattur. Að ákvæði 2. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga verði endurskoðað með tilliti til hlutfalls og gildissviðs heimils frádráttar frá tekjum af atvinnurekstri. Jafnframt verði einstaklingum gert heimilt að draga frá tekjum sínum sambærilegar gjafir og framlög upp að ákveðnu hámarki. Samhliða verði skoðað hvort ákjósanlegt sé að miða frádráttarheimild ákvæðisins við tiltekna fjárhæð og/eða ákveðið hlutfall af tekjum.
  • Virðisaukaskattur. Að undanþáguákvæði 5. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er varðar góðgerðarstarfsemi verði endurskoðað auk þess sem það verði útvíkkað þannig að undanþágan nái jafnframt til ráðstöfunar hagnaðar til almannaheilla en ekki aðeins til líknarmála. Þá er lagt til að þau tímamörk sem sett eru fyrir undanþágu góðgerðarstarfsemi samkvæmt ákvæðinu verði endurskoðuð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum