Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Bændur jákvæðir í garð náttúruverndar

Heyskapur í Landsveit - myndHugi Ólafsson

Íslenskir bændur eru almennt jákvæðir í garð náttúruverndar og sjá fyrir sér að hægt sé að vinna að náttúruvernd samhliða landbúnaði. Þeir vilja leggja alúð við umhverfið til þess að viðhalda náttúrugæðum á bújörðum sínum og eru áhugasamir um að taka þátt í slíkum verkefnum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Skýrslan var unnin í kjölfar samstarfsyfirlýsingar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands sem kvað á um samvinnu á sviði landbúnaðar og náttúruverndar. Skömmu eftir að Ráðgjafarmiðstöðin hóf að vinna að verkefninu fékk það heitið LOGN sem stendur fyrir Landbúnað og náttúruvernd.

Samstarfsyfirlýsingin byggir á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir m.a. að samhliða nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga verði innleiddir sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita. Með þeim verði rudd braut fyrir bændur til þess að hasla sér völl á nýjum sviðum, til að mynda náttúruvernd.

„Það felast mikil tækifæri í því að bændur nýti sér samlegðaráhrif landbúnaðar og náttúruverndar til að stunda umhverfisvænan, en jafnframt ábatasaman, landbúnað á jörðum sínum. Aukin þátttaka bænda í náttúruverndarverkefnum styður við jákvæða byggðaþróun og er líka mikilvægur þáttur í því að styðja við ímynd íslenskra landbúnaðarafurða og landbúnaðarins í heild,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í skýrslunni eru auk viðhorfskönnunarinnar greining á samlegðaráhrifum landbúnaðar og náttúruverndar og umfjöllun um hvernig unnið er að samþættingu þessara þátta erlendis.
Unnið verður áfram að þróun verkefnis um samþættingu náttúruverndar og landbúnaðar á árinu 2020 sem mun byggjast á að þróa fræðslu og ráðgjöf til bænda og skoða betur hvers konar verkefni koma til greina sem stuðla að betri samþættingu við mismunandi aðstæður.

Landbúnaður og náttúra – LOGN



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum