Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2020 Innviðaráðuneytið

Frumvarp til laga um skip í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til laga um skip hafa verið birt á samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 4. mars 2020. Frumvarpinu er ætlað að einfalda löggjöf í kringum skip.

Markmið laganna er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum. Þá er þeim ætlað að veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að innleiða þær kröfur sem leiða af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði sjóréttar er lúta að skipum. Verði frumvarpið að lögum er lagt til að það taki gildi 1. janúar 2022.

Í kynningu á frumvarpinu á samráðsgátt segir að í dag séu í gildi fjölmargir lagabálkar sem gilda um skip. Má þar nefna lög um einkenning fiskiskipa, nr. 31/1925, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002, lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, o.fl. Með þessu frumvarpi er lagt til að þessi lög verði sameinuð í einn lagabálk. Þá eru ákvæði laganna uppfærð og einfölduð þannig að meginreglur laga séu skýrar en ráðherra útfæri skilyrði nánar í reglugerðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum