Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2020 Innviðaráðuneytið

Ný flugstefna eflir innanlandsflug

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði í þeirri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi fram flugstefnu fyrir Ísland, þá fyrstu sinnar tegundar. Var það gert á árinu sem flug á Íslandi átti 100 ára afmæli.

Markmið stefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum. Innanlandsflugið er nú hluti af almenningssamgangnakerfi landsins. Eitt af því sem flugstefnan felur í sér er skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi og að stutt verði við möguleika á fleiri hliðum inn til landsins til að fjölga svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.

Annað sem flugstefnan felur í sér er niðurgreiðsla á flugi íbúa á landsbyggðinni til höfuðborgarinnar þar sem mjög stór hluti allrar þjónustu ríkisins hefur verið byggður upp. Hefur þessi leið verið nefnd skoska leiðin þar sem hún á fyrirmynd í vel heppnuðu kerfi sem Skotar hafa byggt upp í samstarfi ríkis og flugfélaga. Skoska leiðin hefur formlega göngu sína í september 2020 en síðustu mánuði ársins fá íbúar landsbyggðarinnar sem búa í meira en 275 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni endurgreiddan hluta fargjalds af ferð til og frá Reykjavík eða af tveimur leggjum. Verkefnin eru jafnframt hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna og að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt.

Þá er í stjórnarsáttmála kveðið á um að mótuð verði eigendastefna fyrir ISAVIA. Viðauki fyrir Isavia við almenna eigendastefnu ríkisins hefur nú verið unninn í fjármálaráðuneytinu og hann tekinn til umfjöllunar hjá ráðherranefnd um ríkisfjármál.

Þar kemur m.a. fram að hagnaður af rekstri ISAVIA verði nýttur til að byggja upp innviði sem mæta þörfum flugs, þ.m.t. varaflugvallaþjónustu, atvinnulífs og samfélags á hverjum tíma ásamt því að starfsemin byggi á viðskiptalegum forsendum að teknu tilliti til samfélagslegs hlutverks eins og það birtist í eigandastefnu, samgönguáætlun og flugstefnu.

ISAVIA tekur við rekstri Egilsstaðaflugvallar

Mikilvægt skref var stigið þegar stjórn Isavia og ríkið skrifuðu nýverið undir samkomulag um sameiginlegan skilning um yfirtöku Isavia á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar frá og með 1. janúar 2020. ISAVIA mun fjármagna þá þjónustu sem félagið veitir í dag. Frá sama tíma lækka greiðslur ríkisins til Isavia ohf. skv. samningnum um 445,8 m.kr. á árinu 2020. Í staðinn mun ríkið nýta þetta fjármagn sem losnar úr þjónustusamningnum til þess að auka við fjárhagsstuðning við innanlandsflugvelli um land allt og efla innanlandsflugið.

Á sama tíma og ábyrgð Isavia á Egilsstaðaflugvelli hefur verið skýrð hefur undirbúningur verið hafinn fyrir uppbyggingu á Akureyrarflugvelli sem felur m.a. í sér að flugstöðin verður stækkuð. Þær áætlanir styrkja verulega stöðu Akureyrarflugvallar sem einnar af mikilvægustu gáttum flugs inn í landið og styður við þá stefnu Akureyringa að fjölga lendingum á vellinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum