Hoppa yfir valmynd
11. mars 2020 Innviðaráðuneytið

Starfshópur kanni arðsemi repjuræktunar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað starfshóp um ræktun og nýtingu orkujurta, s.s. repju. Verkefni hópsins er að kanna forsendur fyrir stórtækri og sjálfbærri ræktun orkujurta á Íslandi til framleiðslu á lífdísil og öðrum afurðum, t.d. fóðurmjöli, áburði og stönglum. 

„Efling akuryrkju, ræktun orkujurta og nýting repjuolíu getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á margvíslegan hátt. Rannsóknir sýna að hægt er að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta megi sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu. Íslensk framleiðsla sparar innflutning og vinnsla afurðanna skapar atvinnu og eykur sjálfbærni,“ segir ráðherra. 

Samgöngustofa og þar á undan Siglingastofnun hefur um langt skeið unnið að rannsóknum á ræktun orkujurta á Íslandi og nýtingu þeirra. Gerðar hafa verið tilraunir með repjuræktun sem hafa gefist vel. Ræktun og notkun repjuolíu væri hagkvæm um leið og hún hafi jákvæð áhrif á umhverfið. 

Tilraunir Samgöngustofu benda til þess að repjudísill gefi við brennslu sambærilega orku og hefðbundin dísilolía. Stór markaður er fyrir repjuolíu sem lífdísil, en íslenski fiskiskipaflotinn brennir til dæmis árlega alls um 160 þúsund tonnum af dísilolíu. Reynslan hefur sýnt að hver hektari lands í repjurækt gefur af sér um eitt tonn af repjuolíu. Miðað við 10% íblöndun þyrfti því að rækta repju á um 16.000 hekturum lands. 

Sömuleiðis metur Samgöngustofa ávinning felast í ræktun repju í landgræðslu. Tækifæri felast í aukinni akuryrkju sem hefur náð nokkurri hylli íslenskra bænda á undanförnum árum og áratugum. Ræktun á innlendu fóðri sem áður var talin utan seilingar fyrir Íslendinga, hefur verið stunduð með ágætum árangri í öllum landshlutum og verður sífellt stærri þáttur í fóðuröflun bænda. Það eykur möguleika landbúnaðar og gæti orðið mikilvæg nýsköpun hér á landi. Ávinningurinn fer eftir því landi sem valið er en hann er mestur á ógrónu landi svo sem á íslenskum söndum.

Meginverkefni sérfræðingahópsins er annars vegar að greina framleiðslu og framleiðsluverð repjuræktunar ásamt flutningskostnaði og öðrum kostnaði við ræktunina, þ.m.t. hver væru hagkvæmustu ræktunarsvæði landsins. Hins vegar að leggja mat á mögulegan markað fyrir repjuafurðir og markaðsverð. Það verður einnig hlutverk hópsins að vinna að því að uppfylla markmið í þingsályktun Alþingis frá árinu 2017 um að árið 2030 verði 5-10% eldsneytis íslenska skipaflotans íblandað lífeldsneyti.

Í starfshópnum sitja Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og formaður hópsins, Dr. Gylfi Árnason prófessor við Háskóla Íslands, Hlín Hólm frá Samgöngustofu, Jón Bernódusson frá Samgöngustofu, Jón Þorsteinn Gunnarsson frá Fóðurblöndunni, Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri, Sandra Ásgrímsdóttir frá Mannviti og Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. 

Starfshópurinn mun skila tillögum og drögum að aðgerðaáætlun fyrir lok september á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum