Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2020 Utanríkisráðuneytið

Náin samvinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna vegna COVID-19 heldur áfram

Frá fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna - mynd

Á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) sem fram fór í morgun kom fram skýr vilji til áframhaldandi náins samstarfs þessara ríkja við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ríkin hafa verið í nánu samstarfi undanfarnar vikur, einkum varðandi heimflutning á ríkisborgurum sem hafa verið strandaðir um víða veröld.

Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, sem tók við formennsku af Íslandi um síðustu áramót, sagði borgaraþjónustusamstarfið hafa gengið vel og með samvinnu hefði tekist að aðstoða þúsundir íbúa við að komast til síns heima.

Á fundinum báru utanríkisráðherrarnir saman bækur sínar um stöðu COVID-19 faraldursins og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið, bæði hvað varðar sóttvarnir og efnahagsaðgerðir í hverju ríki. Fram kom ríkur vilji til þess að leysa í sameiningu þau vandamál sem kunna að koma upp vegna lokunar landamæra og til þess að vera í góðu sambandi um frekari aðgerðir. Ráðherrarnir ræddu einnig með hvaða hætti ríkin geta stillt saman strengi þegar smitum fer að fækka í hverju landi og tímabært verður að aflétta ýmsum þeim ráðstöfunum sem nú eru í gildi.

„Samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er okkur Íslendingum mjög mikilvægt. Það hefur þegar sannað gildi sitt hvað varðar aðstoð við Íslendinga erlendis og fjölmargir Íslendingar notið góðs af því öryggisneti sem lagt hefur verið út,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Á fundinum í dag ákváðum við að vera áfram í virku sambandi, meðal annars varðandi áætlanir sem eru í smíðum um hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessu ástandi og koma efnahagslífinu aftur í gang. Viðskipti og samstarf milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna skipta miklu máli í því tilliti. Það kom glögglega í ljós þegar Ísland og Noregur þurftu að sækja rétt sinn varðandi viðskipti með hlífðarbúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk á innri markaði Evrópu.“

Bauð Grænlendingum aðstoð við greiningu COVID-19 sýna

Náið samstarf og samvinna nágrannaríkja var einnig aðalumræðuefnið á símafundi sem Guðlaugur Þór átti fyrir nokkrum dögum við Ane Lone Bagger, ráðherra mennta-, menningar- og utanríkismála í grænlensku heimastjórninni. Í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið bauð Guðlaugur Þór fram aðstoð íslenskra heilbrigðiskerfisins við að greina COVID-19 sýni sem tekin eru í Grænlandi, en þau eru nú flutt til Danmerkur til greiningar. Ane Lone Bagger þakkaði boðið og ráðherrarnir sammæltust um að heilbrigðisyfirvöld í báðum löndum myndu útfæra næstu skref. Guðlaugur átti einnig símafund með utanríkisráðherra Möltu, Evarist Bartolo, en stjórnvöld þar hafa sýnt áhuga á hvernig íslensk stjórnvöld hafa brugðist við COVID-19 faraldrinum.

Ræddi viðskiptasamning við ráðherra alþjóðaviðskipta í bresku ríkisstjórninni

Guðlaugur Þór átti einnig símafund með Conor Burns, undirráðherra alþjóðaviðskipta í bresku ríkisstjórninni. Ráðherrarnir fóru yfir komandi fríverslunarviðræður Breta við EFTA-ríkin þrjú innan Evrópska efnahagssvæðisins, en fjarfundur um skipulag þessara viðræðna verður haldinn síðar í apríl. Ráðherrarnir sammæltust um að ræðast aftur við að þeim fundi loknum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum