Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2020 Innviðaráðuneytið

Áform kynnt um ný lög um uppbyggingu, rekstur og þjónustu á flugvöllum

Áform um að leggja fram frumvarp til nýrra laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og flugvallaþjónustu hafa verið birt til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 14. ágúst nk.

Markmiðið með nýrri löggjöf á þessu sviði er að stuðla að því að flugvellir landsins og flugleiðsöguþjónusta þjóni þörfum samfélagsins á skilvirkan og öruggan hátt í samræmi við stefnu stjórnvalda. Stefna hins opinbera á sviði flugvallarekstrar og flugleiðsöguþjónustu birtist nú fyrst og fremst í flugstefnu, eigendastefnu Isavia ohf. og samgönguáætlun á hverjum tíma.

Stefnt er að því að nýju lögin komi í stað þrennra laga sem gilda á þessu sviði um stofnun og starfsemi Isavia ohf. og þau verkefni sem félagið annast fyrir hönd íslenska ríkisins. Í kynningu á samráðsgátt segir að ákvæði þessara laga um rekstur flugvalla og veitingu flugleiðsögu séu dreifð, takmörkuð og að einhverju leyti úrelt. Þá vanti skýr ákvæði um hlutverk flugvalla í heildarsamgöngukerfi landsins og hvernig stefnumörkun samgönguyfirvalda skuli framfylgt. Þessi ákvæði þurfi að greina frá öðrum ákvæðum um innra skipulag Isavia ohf.

Áformin taka á hinn bóginn ekki til laga um loftferðir (nr. 60/1998), en í þeim og reglugerðum á grundvelli þeirra er fjallað um almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og  flugleiðsöguþjónustu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum