Hoppa yfir valmynd
12. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundaði með alþjóðlegum vettvangi fjármálaráðherra um loftslagsmál

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.  - myndGolli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fundaði í dag með alþjóðlegum vettvangi fjármálaráðherra um loftslagsmál, sem ætlað er að hvetja til aðgerða í loftslagsmálum í krafti regluverks og ákvarðana á sviði ríkisfjármála og fjármálamarkaðar. Þetta er fjórði fundur vettvangsins, en hann var haldinn í tengslum við haustfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem fram fer þessa dagana.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslur í samstarfinu á næstunni, áskoranir af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru og hvernig tryggja megi að uppbyggingaraðgerðir vegn faraldursins stuðli að umhverfisvænni hagkerfum.

Á fundinum benti Bjarni á til þess að notkun grænna lausna aukist sé nauðsynlegt að tryggja að grænir innviðir séu fyrir hendi. Hann tók sem dæmi að hér á landi hafi verið lögð áhersla á að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla og rafvæða hafnir landsins. Rafbílum í umferð á Íslandi hafi fjölgað ört og þeir séu nú um 40% nýskráðra bíla.

Þá séu stjórnvöld að skoða hvernig lækkun skatta geti eflt græna fjárfestingu, til dæmis í sjávarútvegi og í smíði nýrra skipa en enn frekari samdráttur í losun sjávarútvegs sé næsta áskorun. Bjarni sagði einnig mikilvægt að skapa hvata til grænnar einkafjárfestingar.

Alþjóðlegur samráðsvettvangur fjármálaráðherra um loftslagsmál var settur á stofn árið 2019 og hefur Ísland verið aðili að vettvangnum frá upphafi. Í aðildinni felst meðal annars viðurkenning á þeirri ógn sem steðjar að efnahagskerfum heimsins, samfélögum og umhverfinu, sem felur í sér áhættu þegar kemur að efnahagslegum vexti og þjóðhagslegum stöðugleika. Fjármálaráðherrarnir telja að í krafti embættis síns séu þeir í lykilstöðu til að hraða umbreytingum til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu og skapa umhverfisvænni hagkerfi með stefnumótun á sviði þjóðhags- og ríkisfjármála og, þar sem það á við, með reglusetningu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum