Hoppa yfir valmynd
1. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Lög um Endurupptökudóm taka gildi í dag.

Með lögum nr. 47/2020, sem taka gildi í dag 1. desember, var gerð breyting á lögum um dómstóla og Endurupptökudómur settur á fót. Endurupptökudómur er sérdómstóll sem tekur ákvörðun um hvort heimila eigi endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Endurupptökudómur mun hafa aðsetur hjá dómstólasýslunni að Suðurlandsbraut 14 í Reykjavík.

Endurupptökudómur tekur við af endurupptökunefnd sem verður lögð niður. Þær beiðnir um endurupptöku sem ekki hafa verið afgreiddar af endurupptökunefnd fyrir 1. desember fara til meðferðar hjá Endurupptökudómi.

Í Endurupptökudómi sitja fimm dómendur, einn frá hverju dómstigi og tveir aðrir sem ekki eru embættisdómarar, en skipað er í þessar tvær stöður að undangenginni auglýsingu og umsögn dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Þessar tvær stöður voru auglýstar lausar til umsóknar 18. september sl. og voru umsækjendur 16. Ráðuneytið óskaði eftir því við Alþingi hinn 13. október sl. að Alþingi kysi mann til að sitja dómnefnd um mat á umsækjendunum sökum vanhæfis nefndarmanns. Alþingi kaus hinn 26. nóvember mann í hæfnisnefndina og tók nefndin strax til starfa.

Hæstiréttur, Landsréttur og dómstjórar héraðsdómstólanna sameiginlega hafa skilað sínum tilnefningum um dómendur til ráðuneytisins. Þegar niðurstaða hæfnisnefndarinnar liggur fyrir mun ráðherra skipa í Endurupptökudóm. Ljóst er að þær óafgreiddu beiðnir um endurupptöku sem færast yfir til Endurupptökudóms frá endurupptökunefnd, en um er að ræða sjö beiðnir, munu frestast þar til dómurinn verður skipaður. Ekki er talið að það valdi vandkvæðum þó mikilvægt sé að slíkar beiðnir séu afgreiddar á sem skemmstum tíma.

Samhliða því að Endurupptökudómstóll er settur á fót var gerð breyting á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála og heimildir til endurupptöku mála rýmkaðar. Í greinargerð með lögunum kemur m.a. fram að niðurstöðu alþjóðlegra dómstóla eins og Mannréttindadómstóls Evrópu og EFTA dómstólsins geti talist ný gögn í máli og grundvöllur undir endurupptöku máls að öðrum skilyrðum uppfylltum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum