Hoppa yfir valmynd
19. mars 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Netöryggiskeppni Íslands haldin um helgina

Keppendur í Netöryggiskeppni Íslands árið 2020. - mynd

Netöryggiskeppni Íslands hófst með forkeppni á netinu í febrúar og nú er komið að landskeppninni sem haldin verður nú um helgina, 20.-21. mars. Í keppninni takast ungmenni á aldrinum 16-25 ára á við flókin verkefni sem byggjast á raunverulegum viðfangsefnum á sviði netöryggis.

Keppnin var haldin í fyrsta sinn í fyrra og þá var hún í Hörpu, en vegna sóttvarna verður landskeppnin eins og forkeppnin haldin á Netinu. Keppnin hefst að morgni laugardags kl. 8 og lýkur að kvöldi sunnudags kl. 20. 

Í keppninni leysa keppendur gagnvirk verkefni sem mörg hver líkja eftir raunverulegum öryggisgöllum sem upp hafa komið í gegnum tíðina. Verkefnin reyna jafnt á skapandi hugsun sem og rökhugsun, en lögð er sérstök áhersla á að framsetning efnisins sé skemmtileg. Hægt verður að fylgjast með frammistöðu keppenda á lifandi stigatöflu (hlekkur er virkur meðan keppni stendur) á netinu meðan á keppni stendur, þótt verkefnin sjálf sjáist ekki.

Keppt um sæti í Netöryggiskeppni Evrópu

Á grunni úrslita keppninnar verður valið í landslið sem stefnt er að senda í Netöryggiskeppni Evrópu, European Cyber Security Challenge (ESCS), sem fer fram í Prag í lok september á þessu ári. Samkvæmt reglum ESCS verða keppendur að vera á bilinu 14-25 ára (fædd á árunum 1996 til og með 2007).

Markmið keppninnar er að vekja áhuga ungs fólks á netöryggi og hvetja ungt fólk til þess að mennta sig á því sviði og gera netöryggi að atvinnu sinni. Þrátt fyrir mikilvægi netöryggis skortir enn fleira hæfileikaríkt fólk til að takast á við þær áskoranir sem því fylgja. Þess vegna setti Netöryggisstofnun Evrópu, ENISA, á laggirnar Netöryggiskeppni Evrópu og Evrópuþjóðir halda síðan eigin landskeppnir. 

Keppnum af þessu tagi fer fjölgandi. Nýlega barst boð um að tilnefna íslenska þátttakendur í úrtaksval Evrópuliðsins í fyrirhugaðri fyrstu heimsmeistarakeppni í netöryggi (þar sem fulltrúar heimsálfa keppa). Annað boð hefur einnig borist um að taka þátt í undirbúningi hugsanlegri netöryggiskeppni Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Það er því ljóst að æ fleiri möguleikar bjóðast ungu fólki sem vill efla hæfni sína í netöryggi og taka þátt í keppnum, auk þess sem sérfræðingar á þessu sviði eru að verða æ eftirsóttari til starfa. 

Hönnuður og umsjónarmaður keppninnar er Hjalti Magnússon, sérfræðingur hjá öryggisfyrirtækinu Syndis. Hjalti sá einnig um fyrstu keppnina sem haldin var í fyrra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum