Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2021 Innviðaráðuneytið

Skýrsla gefin út um stöðu barna og ungmenna í samgöngum

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gefið út skýrslu um stöðu barna og ungmenna í samgöngum. Í gildandi samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 er lögð áhersla á að taka betur mið af þörfum barna og ungmenna við stefnumörkun og uppbyggingu í samgöngum. Skýrslan er unnin í samvinnu við Vegagerðina, Samgöngustofu og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í henni eru sett fram þrjú lykilviðfangsefni um aukið samráð, fræðslu og öryggisaðgerðir.

Börn og ungmenni eru virkir þátttakendur í samgöngum ekki síður en þeir sem eldri eru. Í inngangi skýrslunnar segir að það skipti máli að horfa til þarfa þeirra og hlusta á skoðanir þeirra við stefnumótun í samgöngumálum. Það sé m.a. í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmið SÞ og þingsályktun um Barnvænt Ísland fyrir árin 2021-2024. Þá segir að staða þessa hóps í samgöngum hafi til þessa lítið verið rædd og ekki greind með nægilega skýrum hætti og væri því mikilvæg áskorun.

„Greiðar og öruggar samgöngur skipta okkur öll máli. Hvort sem við erum ung eða gömul höfum við þörf til þess að fara á milli staða. Málefnið er ungmennum mikilvægt og hugleikið. Þau vilja verða  þátttakendur í stefnumótun og við tökum fagnandi á móti þeim. Við þurfum að eiga uppbyggilegt samtal þar sem hlúð er betur að ferðamynstri barna og borin virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum. Skipulagning samgönguinnviða sem miðar við þarfir fólks frá unga aldri og upp úr skilar sér í betra og skilningsríkara samfélagi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Börn og ungmenni hafa sérstöðu

Greining á ferðavenjum barna og ungmenna staðfestir sérstöðu þeirra sem vegfarenda. Þau eru virkir vegfarendur og fara álíka margar ferðir á degi hverjum og Íslendingar gera að jafnaði eða fleiri. Ferðavenjukannanir sýna að börn hjóla mikið og ganga, að ungmenni nota almenningssamgöngur mikið, þar sem þær eru í boði, og að börn og ungmenni ferðast hlutfallslega minna með innanlandsflugi en þeir sem eldri eru. Vísbendingar eru hins vegar um að Loftbrúin gagnist þeim sérlega vel. Hröð breyting verður þó um leið og bílprófsaldri er náð. Í samantektinni segir að mikill samfélagslegur ábati geti verið falinn í því að hlúa betur að ferðamynstri barna og ungmenna, enda eru þau ekki með sama fastmótaða ferðavenjumynstur og þeir sem eldri eru.

Þrjú lykilviðfangsefni

Í samantektinni eru skilgreind þrjú eftirfarandi lykilviðfangsefni sem samgönguáætlun þurfi að taka mið af.

  1. Börn og ungmenni hafi aðkomu að stefnumótun í samgöngum með markvissum hætti. Það er grundvallaratriði að börn og ungmenni fái aðkomu að stefnumótun í málefnum sem varða þau. Hvernig samráð fari fram og er skipulagt skiptir máli. 
  2. Umferðarfræðsla og forvarnir endurspegli ferðavenjur og sé þess eðlis að það nái athygli barna og ungmenna. Ferðavenjur barna og ungs fólks breytast eftir aldri auk þess sem ungt fólk er alla jafna fljótt að tileinka sér nýja samgöngutækni. Það þarf að leita leiða til að stuðla að því að umferðarfræðsla og forvarnir endurspegli ferðavenjur og sé þess eðlis að hún nái athygli barna og ungmenna. Mikill samfélagslegur ábati er af því að ferðavenjur umturnist ekki á bílprófsaldri og að ungmenni upplifi að þau eigi val um ferðavenjur.
  3. Öryggisaðgerðir á þjóðvegum í þéttbýli og uppbygging öruggra og barnvænna samgönguinnviða í samvinnu við sveitarfélög. Mikið verk er óunnið um land allt í uppbyggingu öruggra og barnvænna innviða. Má þar nefna hjóla- og göngustíga, góðar almenningssamgöngur og góða vegi á leiðum skólaaksturs. Þar að auki eru tækifæri víða í ýmiss konar öryggisaðgerðum á þjóðvegum í þéttbýli, nærri samgönguleiðum barna og ungmenna. Áskorun víða um land er fjármögnun aðgerða en sveitarfélög eru misvel í stakk búin fjárhagslega ásamt því að framlög ríkisins eru takmörkuð.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum