Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Innviðaráðuneytið

Starfshópur telur ræktun orkujurta til framleiðslu á lífolíu hagkvæma á Íslandi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, dælir lífdísil úr repjuolíu á traktor á bænum Þorvaldseyri. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fékk á dögunum afhenta skýrslu starfshóps um ræktun og framleiðslu úr orkujurtum. Meginniðurstaða starfshópsins er að sjálfbær ræktun orkujurta, þ.m.t. repju, til framleiðslu á lífolíu (lífdísil) og öðrum afurðum sé hagkvæm hér á landi. Í skýrslunni segir að eftirspurn eftir lífolíu muni vaxa mikið á næstu árum samhliða því að dregið verði úr nýtingu jarðolíu. Framleiðsla og nýting lífolíu úr orkujurtum geti því dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Skýrslan var afhent á bænum Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, en þar hafa verða gerðar tilraunar með repjuræktun til margra ára. „Rannsóknir sýna að hægt er að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta megi sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu. Íslensk framleiðsla sparar innflutning og vinnsla afurðanna skapar atvinnu og eykur sjálfbærni Efling akuryrkju, ræktun orkujurta og nýting repjuolíu getur því dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á margvíslegan hátt.,“ segir ráðherra.

Í skýrslunni leggur starfshópurinn fram fimm megintillögur.

  1. Unnið verði að frekari rannsóknum til að tryggja að sjálfbær framleiðsla repjuolíu verði hagkvæm, að teknu tilliti til ytri kostnaðar, s.s. umhverfiskostnaðar.
  2. Efnahagslegir hvatar verði nægjanlegir til að ræktun verði hagkvæm. Ræktunarstyrkir verði veittir á tilraunastigi fyrir á hvern hektara en færðir yfir á framleiðslumagn með aukinni þekkingu og reynslu.
  3. Sala afurða verði tryggð, m.a. með færanlegri verksmiðju til að pressa repjufræ fyrir bændur. Olía keypt af bændum en bændur geta nýtt repjumjöl í aðrar afurðir.
  4. Aflað verði viðurkenningar á að um sjálfbæra framleiðslu sé að ræða.
  5. Rannsóknir og þróun verði efldar á afmörkuðum sviðum, t.a.m.:
  • nýtingu repjuhrats s.s. í fiskafóður
  • ræktun, vali á yrkjum, kynbótum, sáðtíma, sáðmagni, áburðarmagni, þreskitíma, jarðvinnsluaðferðum, hættu á skaðvöldum, notkun varnarefna, skiptiræktun o.s.frv.
  • hagkvæmustu landnýtingu m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda, orku- og matvælaframleiðslu, verndunar vistkerfa o.s.frv.
  • rekstrargrunni stórfelldrar ræktunar og lífdísilframleiðslu.

Nánar um starfshópinn

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði starfshópinn í apríl 2020. Verkefni hópsins var að kanna forsendur fyrir stórtækri og sjálfbærri ræktun orkujurta á Íslandi til framleiðslu á lífdísil og öðrum afurðum, t.d. fóðurmjöli, áburði og stönglum.

Samfélagslegt markmið verkefnisins er annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum, bátum og ferjum með ræktun orkujurta til að framleiða lífolíu til að nota á aflvélar þeirra og hins vegar að kanna forsendur fyrir stórtækri, sjálfbærri ræktun orkujurta á Íslandi til framleiðslu á lífolíu og öðrum afurðum jurtanna.

Samgöngustofa og þar á undan Siglingastofnun hefur um langt skeið unnið að rannsóknum á ræktun orkujurta á Íslandi og nýtingu þeirra. Gerðar hafa verið tilraunir með repjuræktun sem hafa gefist vel. 

Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, var formaður starfshópsins. Í hópnum sátu einnig Jón Bernódusson, fagstjóri rannsóknar, þróunar og greiningar hjá Samgöngustofu, Gylfi Árnason, verkfræðingur, Sandra Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur, Jón Þorsteinn Gunnarsson, rekstrarhagfræðingur, Hlín Hólm, tilraunaræktandi, Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, Egill Gunnarsson, bústjóri hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Friðfinnur Skaftason, verkfræðingur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Jón Bernódusson, fagstjóri þróunar og greiningar hjá Samgöngustofu. - mynd
  • Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, við repjupressu á bænum. - mynd
  • Repjuolía unnin frá grunni á Þorvaldseyri. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum