Hoppa yfir valmynd
24. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla birt um ástand hafsins við Ísland

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman skýrslu um ástand hafsins við Ísland með tilliti til mengunar og fleiri umhverfisþátta, s.s. súrnunar sjávar.

Skýrslan er gefin út í tilefni af ráðherrafundi OSPAR-samningsins um vernd norðaustur-Atlantshafsins 1. október næstkomandi, sem er sá fyrsti í rúman áratug.

Ísland tekur þátt í víðtækri vöktun á ástandi hafsins á grunni OSPAR-samningsins og er skýrslan samantekt á helstu niðurstöðum í þeirri vöktun. Tekur hún m.a. til þrávirkra lífrænna efna, geislavirkra efna, þungmálma, næringarefna og plasts í hafi.

Almennt er mengun lítil á Íslandsmiðum af völdum flestra þessara efna og er í flestum tilfellum undir viðmiðunarmörkum varðandi áhrif á heilsu og lífríki. Sums staðar er mengun á niðurleið, s.s. varðandi geislavirk efni og mörg þrávirk lífræn efni. Þá þróun má rekja að miklu leyti til þess að þrýst hefur verið á minnkun losunar á þessum efnum, m.a. á grunni Stokkhólms-samningsins um hættuleg þrávirk efni og baráttu gegn losun frá kjarnorkuendurvinnslustöðvum. Nýjar ógnir við lífríki hafsins hafa hins vegar skotið upp kollinum á sama tíma. 

Vöktun sýnir að súrnun sjávar er óvíða hraðari á heimsvísu en á hafsvæðinu norðan Íslands. Eins má nefna plast og annað rusl í hafi og á ströndum, þ.á m. örplast, sem getur borist í lífverur. Plastmengun í hafi er vaxandi alþjóðlegur vandi og hefur Ísland hvatt til þess að gerður verði alþjóðlegur samningur til að takast á við þann vanda.

„Það er ánægjulegt að sjá að mengun hafsins sé almennt lítil við Íslandsstrendur,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við verðum hins vegar að gæta vel að því hvað berst til hafs og draga úr allri mengun eins og hægt er. Það á ekki síst við um plast og örplast. Súrnun sjávar er risastórt viðfangsefni sem gæti haft gríðarleg áhrif á Íslandsmiðum. Ég bind miklar vonir við Loftslagsþing SÞ sem haldið verður í Skotlandi í nóvember. Þar verða þjóðir heims að koma sér saman um stóraukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.“

Ástand hafsins við Ísland

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum