Hoppa yfir valmynd
1. október 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áföngum náð í vernd sjófugla og gegn plastmengun í hafi á alþjóðlegum fundi um vernd NA- Atlantshafsins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra fagnaði nýjum og metnaðarfullum markmiðum OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins, sem samþykkt voru á ráðherrafundi samningsins í Portúgal í dag. Hann nefndi þar meðal annars markmið um minnkun plastmengunar og aukna vernd til handa sjófuglum með stofnun nýs verndarsvæðis.

Ráðherrafundur OSPAR-samningsins fór fram í Cascais í Portúgal, en aðild að samningnum eiga Ísland og 14 önnur ríki í norðan- og vestanverðri Evrópu, sem liggja að Atlantshafi. Samningurinn kveður á um varnir gegn mengun sjávar, en einnig um vernd tegunda og búsvæða í hafi, s.s. með stofnun verndarsvæða. Á fundinum var samþykkt yfirlýsing ráðherra og ný vinnuáætlun OSPAR til ársins 2030.

Ráðherra ávarpaði fundinn í fjarfundi og sagði OSPAR byggja á sterkum grunni; vísindalegri vöktun á umhverfi hafsins og ákvörðunum og tilmælum um aðgerðir til bæta stöðu mála. Náðst hafi góður árangur m.a. varðandi ýmis mengunarefni, eins og komið hafi fram í nýrri samantekt íslenskra stjórnvalda fyrir fundinn; þar kom í ljós að mengun sé lítil við Íslandsstrendur og fari minnkandi hvað varðar mörg mengunarefni. Slíkt komi ekki af sjálfu sér, heldur sé það árangur af vinnu vísindamanna, baráttufólks í umhverfisvernd og fjölþjóðlegrar samvinnu eins og í OSPAR.

Þrátt fyrir þetta séu blikur á lofti varðandi umhverfisvernd í hafi. Þar megi nefna plastmengun í hafi, sem sé vaxandi áhyggjuefni. Það sé fagnaðarefni að OSPAR hafi sett metnaðarfull töluleg markmið um að draga úr plastmengun á ströndum. OSPAR þurfi þó  að auki að þrýsta á um hnattrænt samkomulag gegn plastmengun í hafi.

Alvarlegasta ógnin sem steðjaði að lífríki hafsins sé hins vegar súrnun sjávar og aðrar afleiðingar loftslagsbreytinga. Óvíða í heiminum sé súrnun hraðari en í hafinu fyrir norðan Ísland. Það sé jákvætt að OSPAR hafi eflt vöktun á súrnun í NA-Atlantshafi og skoði möguleika til að bregðast við, en eina leiðin til að forða lífinu í sjónum frá stórslysi sé að draga úr losun koldíoxíðs á heimsvísu.

Í ávarpi ráðherra kom fram að stofnun nýs verndarsvæðis í hafi á alþjóðlegu hafsvæði langt suðvestur af Íslandi, markaði tímamót í verndun NA-Atlantshafsins, en stofnun svæðisins (sem er þekkt undir skammstöfuninni NACES) er hluti af ákvörðunum ráðherrafundarins. Verndarsvæðið er hið fyrsta sinnar tegundar utan lögsögu ríkja sem er sérstaklega ætlað fyrir vernd sjófugla, en um 3-5 milljónir sjófugla hafa þar dvöl stóran hluta árs á lífauðugu hafsvæði, þ.á m. fuglar sem verpa á Íslandi, s.s. lundi, álka, rita, skúmur, langvía og  stuttnefja.

Ráðherra lýsti stuðningi íslenskra stjórnvalda við markmið um 30% þekju verndaðra svæða á hafsvæðinu sem OSPAR-samningurinn nær til á norðaustur-Atlantshafi til 2030.

Frekari upplýsingar um fundinn og starf OSPAR-samningsins er að finna á vef hans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum