Hoppa yfir valmynd
14. október 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðherrar funduðu með krónprinsi Danmerkur og danskri viðskiptasendinefnd

Ráðherrar funduðu með krónprinsi Danmerkur og danskri viðskiptasendinefnd - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

Ráðherrar orkumála og umhverfismála funduðu með danskri viðskiptasendinefnd undir forystu Friðriks krónprins og kynntu fyrir Dönum stefnu og áætlanir íslenskra stjórnvalda í orkumálum og loftslagsmálum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fór yfir orkustefnu Íslands og áherslur Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku og orkuskipta. Eitt af lykilmarkmiðum orkustefnu er að fyrir árið 2050 verði Ísland óháð notkun jarðefnaeldsneytis, og að þar með verði orkuskiptum fyrir Ísland lokið. Fór ráðherra yfir leiðir sem eru til skoðunar til að ná því marki, meðal annars hlutverk rafeldsneytis í næstu áföngum í orkuskiptum landsins á sviði þungaflutninga, hafsækinnar starfsemi og í flugi. Jafnframt kom ráðherra inn á farsæla samvinnu milli Íslands og Danmerkur á sviði orku- og loftlagsmála, eins og stofnun Grænvangs er gott dæmi um.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fór yfir stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Hann nefndi markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, sem hefði verið lögfest árið 2021. Markmið um minnkun losunar hefðu verið efld úr -40% í -55% til 2030 í samfloti með ESB og Noregi. Það skipti þó meginmáli að tryggja að aðgerðir fylgdu markmiðum, en ríkisstjórnin byggði á aðgerðaáætlun frá 2020. Sagði Guðmundur Ingi að rafvæðing íslenska bílaflotans væri nú á fleygiferð og að Ísland væri nú í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi varðandi nýskráningar vistvænna bifreiða. Þá hefði stuðningur við náttúrulausnir í loftslagsmálum verið meira en tvöfaldaður á undanförnum árum, en þar væri átt við m.a. skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, sem miðuðu að kolefnisbindingu og minnkun losunar.

Báðir ráðherrarnir bentu á að nýsköpun væri mikilvægur þáttur í að vinna á loftslagsvandanum. Þar væri hægt að benda á lausnir eins og CarbFix, sem bindur kolefni í steindum í basalti. Sú aðferð byði upp á gríðarlega möguleika á Íslandi og á heimsvísu til lengri tíma. Áhugavert væri að horfa til Dana, sem hefðu verið leiðandi á mörgum sviðum grænnar nýsköpunar og tækni, m.a. við nýtingu vindorku. Margt mætti læra af Dönum í orku- og loftslagsmálum og áhugavert að skoða möguleika á samvinnu Íslands og Danmerkur í grænum lausnum.

 

Friðrik krónprins og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur

Jens Holst-Nielsen stýrði umræðum milli ráðherra og dönsku sendinefndarinnar

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum