Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2022 Forsætisráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ríkisstjórnin ræddi stöðu og horfur í faraldrinum

Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum í dag um stöðu og horfur í COVID-19 faraldrinum. Markmið stjórnvalda er sem fyrr að standa vörð um líf og heilsu landsmanna en lágmarka efnahagsleg og samfélagsleg áhrif faraldursins.

Í ágúst síðastliðnum var ákveðið að fara leið temprunar í baráttunni við COVID-19 en í ljósi breyttrar stöðu faraldursins hefur verið til skoðunar hvort tilefni sé til að endurskoða þá nálgun.

Ráðherranefnd um samræmingu mála hélt sjö samráðsfundi með hagsmunaaðilum í lok desember og byrjun janúar. Á þessum fundum var rætt um stöðu faraldursins og heilbrigðiskerfisins, sóttvarnir og mannréttindi, sóttvarnaaðgerðir og bólusetningar, velferðarkerfið, efnahagsmál og atvinnulíf og vinnumarkaðsmál.

Meðal gesta á fundum ráðherranefndarinnar voru landlæknir, sóttvarnalæknir, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra, fulltrúar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala, fulltrúar frá heilbrigðistæknifyrirtækjum, lagadeild Háskóla Íslands, lagaprófessor við Háskólann í Bergen, umboðsmaður barna, fulltrúar frá velferðarsviði Reykjavíkur, Geðhjálp, ÖBÍ, Þroskahjálp, Seðlabankanum, greiningardeildum banka, Vinnumálastofnun, ASÍ, SA, BSRB, BHM, Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ekki er talin ástæða til að fara af leið temprunar að svo stöddu enda staða faraldursins viðkvæm og mikið um smit í samfélaginu. Það kann að breytast ef ástandið versnar meira en horfur eru á. Ríkisstjórnin leggur áfram mikla áherslu á bólusetningar, ekki síst barna. Næstu vikurnar verður mikilvægt að standa við bakið á heilbrigðiskerfinu svo það ráði við álagið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum