Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2022 Matvælaráðuneytið

Fundu verndandi arfgerð gegn riðuveiki í íslensku sauðfé

Fyrsti hrútur landsins sem greinist með ARR arfgerðina. Gimsteinn 21-001 frá Þernunesi. - myndRML

Hin klassíska verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé, ARR, hefur nú fundist í fyrsta sinn í íslenskri kind. Þetta er stórmerkur fundur, því hér er um að ræða arfgerð sem er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi og unnið hefur verið með í löndum Evrópusambandsins við útrýmingu riðu með góðum árangri. Arfgerðin hefur aldrei áður fundist í sauðfé hérlendis þrátt fyrir víðtæka leit. Þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu.

Svandís Svavarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra:

„Þessar fréttir gefa fyrirheit um að eftir áratuga baráttu sé loksins komin leið til að vinna lokasigur á riðuveiki á Íslandi. Næstu skref eru að greina hversu útbreitt hin verndandi arfgerð er og með hvaða hætti megi nýta sér þessa nýju þekkingu í ræktunarstarfi.

Síðastliðið vor var hleypt af stokkunum tveim rannsóknarverkefnum sem höfðu sama meginmarkmið -  að leita að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé.

Annars vegar eru það sérfræðingar á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og hins vegar sauðfjárbóndinn Karólína Elísabetardóttir ásamt erlendum vísindamönnum sem standa fyrir rannsóknunum. Þessi rannsóknaverkefni hlutu bæði styrk úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar sem er í umsjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Forsvarsmenn þessara verkefna mynduðu síðan teymi sem unnið hefur saman að leitinni.

Þegar raðgreind höfðu verið rúmlega 4.200 sýni, sem bæði tilheyra þessari rannsókn og öðrum verkefnum á síðustu 10 mánuðum gerðist hið óvænta, sex gripir fundust á Austurlandi sem bera arfgerðina ARR. Kindurnar eru allar á bænum Þernunesi í Reyðarfirði og eftir frekari rannsóknir fundust fjórir skyldir gripir til viðbótar á bænum sem bera þessa arfgerð. Kindur þessar eru kollóttar og rekja ættir sínar m.a í kollótta féð í Reykhólasveit og á Ströndum.

Þessi fundur gefur miklar vonir um að fé með ARR arfgerðina geti fundist víðar á landinu. Það kemur sér vel að um þessar mundir er að hefjast stórátak meðal bænda í riðuarfgerðargreiningum, þar sem áætlað er að ná a.m.k. upplýsingum um arfgerðir 15 þúsund gripa til viðbótar nú í vetur. Fyrir ræktunarstarfið verður áskorunin á næstu árum að koma ARR arfgerðinni sem hraðast inn í stofninn án þess að draga um of úr erfðafjölbreytileika hans, en um er að ræða langtíma uppbyggingarstarf. Vonir standa til að áframhaldandi leit í stofninum skila upplýsingum um fleiri gripi með þessa arfgerð.

Nánar má lesa um fundinn og arfgerðina á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum