Um 5.000 leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga
Sveitarfélögin í landinu áttu í lok síðasta árs tæplega 5.000 leiguíbúðir samkvæmt nýbirtri skýrslu Varasjóðs húsnæðismála. Sjö sveitarfélög áforma að fjölga leiguíbúðum í náinni framtíð, samtals um 131 íbúð. Meðalbiðtími fólks eftir félagslegu leiguhúsnæði á landsvísu er 26,6 mánuðir.
Varasjóður húsnæðismála hefur frá árinu 2004 annast árlega könnun á stöðu félagslegs leiguhúsnæðis hjá sveitarfélögum landsins og taka niðurstöður þessarar könnunar til ársins 2014. Sendur var rafrænn spurningalisti með 32 spurningum til allra sveitarfélaga í landinu. Svör bárust frá 63 sveitarfélögum en í þeim búa samtals um 97,1% landsmanna. Af niðurstöðum könnunarinnar má nefna þessar helstar:
Fjölgun íbúða
Sjö sveitarfélög áforma að fjölga leiguíbúðum sínum í náinni framtíð um samtals 131 íbúð. Mestu munar um áform Félagsbústaða hf. í Reykjavík sem ætla að kaupa eða byggja samtals 100 íbúðir. Þrjú önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla að fjölga íbúðum um samtals 21 íbúð, þ.e. Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær, og fjögur sveitarfélög á landsbyggðinni ætla að fjölga íbúðum samtals um 10.
Sveitarfélögum fækkar sem telja skort á leiguíbúðum
Árið 2014 voru 26 sveitarfélög sem töldu vera „skort eða nokkurn skort“ á félagslegum leiguíbúðum í sínu umdæmi í samanburði við 40 sveitarfélög árið áður. Alls töldu 18 sveitarfélög markaðinn vera í jafnvægi og þrjú sveitarfélög töldu sig búa við „offramboð eða nokkurt offramboð“ á félagslegum leiguíbúðum.
Fækkun umsókna og fækkun fólks á biðlistum
Þorri umsækjenda um félagslegar leiguíbúðir eru í Reykjavík og sveitarfélögunum umhverfis höfuðborgina, þ.e. í „Kraganum.“ Um 75% umsóknanna eru af þessu svæði. Umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði á landsvísu fækkaði um 10% milli áranna 2013 og 2014 og fólki á biðlistum fækkaði um 6% á landsvísu. Yfir 80% umsækjenda á biðlistum eru á höfuðborgarsvæðinu.
Biðtími eftir leiguhúsnæði
Lengstur meðalbiðtími eftir leiguíbúð árið 2014 var 30 mánuðir hjá Kópavogsbæ og Akraneskaupstað, 29 mánuðir hjá Reykjavíkurborg og 24 mánuðir hjá Hveragerðisbæ. Á landsvísu var meðalbiðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði 25,6 ár.
Sérstakar húsaleigubætur greiddar hjá 26 sveitarfélögum
Öll stærri sveitarfélög á suðvesturhorni landsins, frá Árborg til Borgarbyggðar, greiða sérstakar húsaleigubætur og stór hluti fjölmennari sveitarfélaga á landsbyggðinni gerir slíkt hið sama. Sveitarfélög sem greiða sérstakar húsaleigubætur áttu alls 4.229 íbúðir, eða 85,7% allra leiguíbúða íslenskra sveitarfélaga árið 2014. Samtals eru þetta 26 sveitarfélög sem greiða sérstakar húsaleigubætur.
Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar leigjendum sem búa við mjög erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður. Ákvörðun um að greiða sérstakar húsaleigubætur eða ekki er á hendi sveitarstjórna. Um er að ræða húsaleigubætur sem eru viðbót við grunnfjárhæðir húsaleigubóta og skal sveitarstjórn setja reglur um slíkar bætur og kynna íbúum sveitarfélagsins með tryggum hætti.