Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Starfshópur um karla og jafnrétti skilar skýrslu til velferðarráðherra

Fjölskyldumynd
Fjölskyldumynd

Starfshópur um karla og jafnrétti, sem skipaður var af velferðarráðherra til að fjalla um hlut karla í jafnréttismálum, hefur skilað skýrslu til ráðherra með fimmtán tillögum að sérstökum aðgerðum, rannsóknum og verkefnum.

Starfshópurinn var skipaður í janúar 2011 sem liður í áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011–2014. Verkefni starfshópsins fólst í að gera tillögur um hvernig auka megi þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og auka aðild karla að jafnréttisstarfi, fjalla um kynskipt náms- og starfsval, áhrif staðalmynda á stöðu karla í íslensku samfélagi, þátttöku karla í verkefnum fjölskyldunnar og tengslin milli heilsu, lífsgæða og kynjasjónarmiða.

Starfhópurinn stóð að opnum fundum um einstök málefni vinnunnar og kynnti starf starfshópsins á málstofum bæði á Akureyri og í Reykjavík. Til að setja vinnu starfshópsins ramma var umfjöllun að mestu bundin við fimm áherslusvið: 1) ofbeldi og kynbundið ofbeldi, 2) umönnun, fæðingarorlof og forsjá, 3) heilsu og lífsgæði, 4) klám og vændi,  5) menntun og kynskiptan vinnumarkað.

Í tillögum bendir starfshópurinn á nauðsyn þess að efla rannsóknir á ýmsum sviðum Jafnréttismála. Sérstaklega telur starfshópurinn að rannsóknir á vændi þurfi að stórefla, þar sem varpa þarf ljósi á karla sem vændiskaupendur.  Efla þarf rannsóknir á ofbeldismenningu og þætti karla í henni – bæði hvað varðar ofbeldi í nánum samböndum en ekki síst ofbeldi almennt.

Starfshópurinn telur að rannsaka þurfi efnahags- og félagslega stöðu meðlagsgreiðenda, sem í flestum tilfellum eru karlar. Þá telur starfshópurinn að kanna verði þörf námskeiðs fyrir foreldra um afleiðingar skilnaðar á börn, sem hefðu það að markmiði að milda neikvæð áhrif skilnaða og styrkja markmið um jöfnun foreldraábyrgðar.

Starfshópurinn leggur til að báðir foreldrar verði skyldugir til að taka fæðingarorlof fyrstu tvær vikur eftir fæðingu barns. Þá er mælst til að gert verði átak til þess að efla hlut karla í umönnunarstörfum, sérstaklega innan starfsgreina á borð við hjúkrun og leikskóla.

Formaður starfshópsins var Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur. Aðrir skipaðir voru: Arnar Gíslason,  jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands, Andrés Ingi Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Georg Páll Skúlason, formaður FBM, Georg Pétur Markan, kennari á Súðavík, Hilmar Magnússon, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg, Ólafur Elínarson, sérfræðingur hjá Capacent, Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur Jafnréttisstofu og Þórður Kristinsson, kennari við Kvennaskólann í Reykjavík.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta