Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur
Vinnumálastofnun opnaði 21. nóvember síðastliðinn Greiðslustofu húsnæðisbóta og upplýsinga- og umsóknarvefinn www.husbot.is þar sem leigjendur geta sótt um húsnæðisbætur samkvæmt nýjum lögum um húsnæðisbætur sem taka gildi 1. janúar 2017.
Lög nr. 75/2006 um húsnæðisbætur voru samþykkti á Alþingi síðastliðið sumar og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Á sama tíma falla úr gildi lög um húsaleigubætur og hlutverk sveitarfélaganna varðandi útgreiðslu húsnæðisstuðnings til leigjenda flyst til Greiðslustofu húsnæðisbóta.
Markmið laga um húsnæðisbætur er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.
Vinnumálastofnun annast framkvæmd húsnæðisbótakerfisins sem er fjármagnað að fullu úr ríkissjóði. Við útreikning húsnæðisbóta er tekið mið af fjölda heimilismanna óháð aldri, leigufjárhæð, öllum tekjum og nettó eign, þ.e. eignum að frádregnum skuldum.
Inni á nýja vefnum www.husbot.is er að finna allar upplýsingar sem varða húsnæðisbætur og umsóknarferlið sjálft auk þess sem þar er að finna reiknivél sem hjálpar leigjendum að átta sig á fjárhæð mögulegra húsnæðisbóta.
Fyrstu greiðslur samkvæmt lögum um húsnæðisbætur verða greiddar út 1. febrúar 2017.