Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2024 Innviðaráðuneytið

Umsögn um drög að reglugerð um innleiðingu ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja í byggingarreglugerð

Innviðaráðuneytið, í samræmi við tillögu stýrihóps um breytingar á byggingarreglugerð, hefur nú birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012, ásamt tillögu að samræmdri aðferðafræði lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar. Ákvæði um gerð lífsferilsgreininga í byggingarreglugerð hefur verið til endurskoðunar í rúmt ár, samhliða vinnu við gerð tillögu að samræmdri aðferðafræði lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 28. febrúar 2024.

Stór þáttur kolefnislosunar, hráefnisnotkunar og orkunýtingar á heimsvísu er af völdum byggingariðnaðarins. Í ljósi umfangs mannvirkjageirans og loftslagsskuldbindinga stjórnvalda er þörf á markvissum aðgerðum til að sporna við umhverfisáhrifum af þeim völdum. Með lífsferilsgreiningu mannvirkja er hægt að leggja mat á og takmarka umhverfisáhrif þeirra frá upphafi til enda.

Innleiðing lífsferilsgreiningar á íslenskum mannvirkjum á meðal annars rætur að rekja til aðgerðaráætlunar í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 sem kom út árið 2022 og sem unninn var á vegum verkefnisins Byggjum grænni framtíð, samstarfsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs um vistvænni mannvirkjagerð. Í vegvísinum var sett fram markmið um 43% samdrátt í kolefnislosun bygginga árið 2030 miðað við viðmiðunarár og 74 aðgerðir skilgreindar til að ná því markmiði. Aðgerð 5.1.3 í vegvísinum, um samræmda aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga og innleiðingu hennar, er ein af grundvallaraðgerðum vegvísisins til að árangur náist; ef þú getur ekki mælt það, geturðu ekki bætt það.

Á grundvelli þessarar aðgerðar var myndaður starfshópur í ágúst 2022 um gerð samræmdrar aðferðafræði lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar og eru drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð unnin á grundvelli tillagna starfshópsins. Breytingin á byggingarreglugerðinni felur í sér að gerð verði krafa um gerð lífsferilsgreininga fyrir öll ný byggingarleyfisskyld mannvirki í umfangsflokkum 2 og 3 en til þessa hefur aðeins verið mælst til þess að slík lífsferilsgreining sé gerð. Ekki verði gerð krafa um að þeir aðilar sem geri lífsferilsgreiningar þurfi að hafa lokið tilteknu námi eða hafi sérstök réttindi, en hafi þó þekkingu á mannvirkjagerð. Hins vegar er lagt til að notaður verði hugbúnaður fyrir lífsferilsgreiningar til að tryggja gæði gagna, rekjanleika og einfalda sérfræðingum í lífsferilsgreiningum og hönnuðum vinnuna. Ekki verði gerð krafa um notkun á ákveðnum hugbúnaði umfram annan, en ætlast til að allar forsendur og bakgrunnsgögn liggi fyrir. Gert er ráð fyrir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefi út leiðbeiningar um samræmda aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga og að leiðbeiningarnar verði unnar á grunni framangreindra tillagna.

Til að tryggja eins og kostur er farsæla innleiðingu er gert ráð fyrir að ný ákvæði í byggingarreglugerð um framkvæmd lífsferilsgreininga taki ekki gildi fyrr en 1. september 2025. Aðilum verði þó strax heimilt að skila inn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar niðurstöðum og útreikningum lífsferilsgreininga í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Með innleiðingu lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar lærum við af og fylgjum eftir öðrum Norðurlandaþjóðum sem hafa á undanförnum árum innleitt slíkar greiningar. Sú þróun er í takti við markvisst samstarf Norðurlandanna varðandi kolefnishlutlausar byggingar, sem birtist m.a. í samvinnuverkefninu Nordic Sustainable Construction sem Norræna ráðherranefndin hleypti af stokkunum 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta