Frumvarp um aðgerðir í húsnæðismálum
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, lagði fram á Alþingi í dag frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál. Breytingatillögurnar eru liður í aðgerðum sem ráðherra hefur gripið til í samvinnu við Íbúðalánasjóð til að auka möguleika sjóðsins á því að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda sem viðbúið er að muni fjölga mjög á næstu mánuðum vegna erfiðrar stöðu í efnahagslífi þjóðarinnar. Aðgerðir samkvæmt frumvarpinu eru þríþættar:
- Lánstími skuldbreytingalána sem Íbúðalánasjóði er heimilt að veita lánþegum vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika verði lengdur úr 15 árum í 30 ár.
- Íbúðalánasjóði verði heimilt að lengja upphaflegan lánstíma lána sjóðsins vegna greiðsluerfiðleika um allt að 30 ár í stað 15 ára eins og nú er.
- Íbúðalánasjóði verði heimilt að leigja eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur leyst til sín á nauðungarsölu.
Heimild Íbúðalánasjóðs til að leigja eða fela öðrum að annast útleigu íbúðarhúsnæðis hefur þann megintilgang að gera leigjendum íbúða sem sjóðurinn hefur eignast á nauðungaruppboði, eða eigendum íbúða sem hafa misst þær vegna greiðsluerfiðleika, kleift að búa áfram í íbúðinni í tiltekinn tíma gegn leigu. Íbúðalánasjóður getur sjálfur annast útleigu íbúða eða falið það öðrum með samningi. Til dæmis gæti sjóðurinn samið við sveitarfélög um að annast þetta verkefni. Ekki er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður eigi og leigi íbúðarhúsnæði til lengri tíma heldur sé hér fyrst og fremst um skammtímaúræði að ræða. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skilyrði varðandi útleigu sjóðsins á íbúðarhúsnæði og fyrirkomulag þess í reglugerð.
Vert er að geta þess að hjá Íbúðalánasjóði hefur nú þegar verið gripið til sérstakra aðgerða sem ekki kröfðust lagasetningar til að mæta fólki í greiðsluerfiðleikum og eru þær eftirtaldar:
- Íbúðalánasjóður getur nú boðið viðskiptavinum sínum að greiða ekki af höfuðstól láns heldur einungis vexti og verðbætur vegna þeirra í tiltekinn tíma þyki það líklegt til að leysa úr greiðsluerfiðleikum lántakenda.
- Lántakandi getur nú komist hjá nauðungarsölu með greiðslu þriðjungs af vanskilum sínum í stað helmings áður.
- Lántakandi sem hefur keypt nýtt húsnæði en ekki tekist að selja eldra húsnæði sitt vegna sölutregðu á fasteignamarkaði getur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fengið frest á greiðslu afborgana lána.
- Íbúðalánasjóður hefur breytt verklagi við innheimtu vangoldinna skulda og bíður nú með sendingu greiðsluáskorunar í fjóra og hálfan mánuð frá gjalddaga í stað tveggja og hálfs mánaðar áður.
- Tími sem fólk hefur til að flytja úr íbúð sem það missir á nauðungarsölu hefur verið lengdur úr einum mánuði í þrjá.
Framantaldar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum sem geta meðal annars falist í skuldbreytingu vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana í allt að þrjú ár.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum