Hoppa yfir valmynd
12. desember 2005 Innviðaráðuneytið

Tillögur tekjustofnanefndar orðnar að lögum

Þann 9. desember sl. voru afgreidd sem lög frá Alþingi þrjú lagafrumvörp sem fela í sér breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga. Öll voru frumvörpin lögð fram í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar sem félagsmálaráðherra skipaði árið 2003 og skilaði tillögum 17. mars 2005.

Um er að ræða eftirtalin mál:

Breyting á lögum um húsnæðismál

Varasjóði húsnæðismála hefur verið heimilað að auka árleg rekstrar- og söluframlög vegna félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga um allt að 280 milljónir króna á árunum 2005 til 2007, eða alls 840 milljónir króna. Þessi auknu framlög koma af höfuðstól Varasjóðs viðbótarlána en eins og kunnugt er var hætt að veita viðbótarlán í desember 2004 og hefur sjóðurinn því ekki orðið fyrir nýjum skuldbindingum frá þeim tíma. Rammasamkomulag ríkis og sveitarfélaga um sérstakt 60 milljóna króna árlegt framlag ríkisins og 20 milljóna króna árlegt framlag sveitarfélaga til Varasjóðs húsnæðismála verði jafnframt framlengt til ársins 2009.

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga

Undanþágum frá greiðslu fasteignaskatts fækkar við gildistöku laganna. Þær undanþágur sem um er að ræða varða einkum fasteignir í eigu ríkissjóðs og mun breytingin skila sveitarfélögum 600 milljónum króna á ári í auknum tekjum frá ríkinu þegar hún kemur að fullu til framkvæmda. Breytingar á Landskrá fasteigna geta framvegis haft áhrif á skattstofn innan árs. Þannig verður lagður fasteignaskattur á nýjar lóðir og ný mannvirki um næstu mánaðamót eftir skráningu þeirra í Landskrá fasteigna. Áætlað er að sú breyting skili sveitarfélögunum auknum tekjum sem nemur 150-200 milljónum króna á ári. Frá 1. janúar 2007 verður fasteignaskattur lagður á í Landskrá fasteigna og einnig verður mögulegt að hafa sama hátt á við álagningu fasteignagjalda. Sveitarstjórnir munu ráða fjölda gjalddaga, líkt og verið hefur.

Breyting á lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

Gildistími laganna hefur verið framlengdur um þrjú ár eða frá 2006 til og með 2008 með óbreyttri árlegri fjárhæð sem er 200 milljónir króna á ári enda fóru þessar framkvæmdir hægar af stað en gert var ráð fyrir.

Aðrar tillögur tekjustofnanefndar

Tímabundið viðbótarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Tekjustofnanefnd lagði einnig til að á árunum 2006-2008 kæmi árlegt 700 milljóna króna viðbótarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf, m.a. vegna erfiðra ytri aðstæðna. Alþingi hefur samþykkt fjárveitingu til þessa verkefnis á fjárlögum fyrir árið 2006 og vinna fulltrúar félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga nú að gerð reglna um úthlutun fjárins.

Endurskoðun reglna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra skipaði þann 9. september 2005 nefnd til að endurskoða til að endurskoða III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Enn fremur er gert ráð fyrir að nefndin geri tillögur um hugsanlegar breytingar á reglugerðum sem sjóðurinn starfar eftir. Nefndinni er ætlað að meta kosti og galla núverandi jöfnunarkerfis og hugsanlega þörf fyrir endurskoðun á kerfinu í heild sinni eða einstökum þáttum þess. Sérstaklega skal horft til þess hvort breytingar á sveitarfélagaskipan, tekjustofnum og verkefnum sveitarfélaga í tengslum við átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins og önnur þróun hafi að einhverju leyti breytt forsendum fyrir núverandi kerfi þegar horft er til framtíðar. Í því sambandi skal nefndin meðal annars hafa hliðsjón af hugmyndum tekjustofnanefndar um áherslur við endurskoðun sjóðsins. Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum fyrir 1. apríl 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta