Fullt út úr dyrum á tímamótafundi um vinnuvernd
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, fulltrúar launafólks, atvinnurekenda o.fl. undirrituðu viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum í lok morgunverðarfundar um þessi mál í dag. Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn sem einnig var sendur út beint á vefnum.
Efnt var til fundarins að frumkvæði stjórnar Vinnueftirlits ríkisins þar sem sæti eiga fulltrúar stærstu samtaka aðila vinnumarkaðarins auk fulltrúa ráðherra en Vinnueftirlitið stóð að fundinum ásamt velferðarráðuneytinu. Tilgangurinn var að vekja athygli á nauðsyn þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með sérstaka áherslu á framangreinda þætti.
Fundurinn hófst með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og að því búnu fjölluðu fulltrúar aðila vinnumarkaðarins um þessi mál hver frá sínu sjónarhorni. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra flutti lokaræðu fundarins og ræddi meðal annars um hvernig best megi nýta þann kraft sem leystur var úr læðingi með #metoo byltingunni og bregðast við vandanum með markvissum og beinum aðgerðum.
„Við eigum einnig að líta á þetta sem tækifæri til að skerpa baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna með áherslu á að sú barátta er jafnt málefni karla og kvenna“ sagði Ásmundur Einar meðal annars. Hann ræddi nokkuð um ákvæði gildandi reglugerðar gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem sett var árið 2015: „Reglugerðin er skýr, efni hennar ljóst og tilgangurinn einnig“ sagði ráðherra en tók fram að það væri ekki nóg, framkvæmdin þyrfi einnig að vera skýr og viðbrögð á vinnustöðum við þeim aðstæðum sem þar væri fjallað um yrðu að vera skjót, fagleg og afdráttarlaus. Hann ræddi einnig um sameiginlega ábyrgð allra á hverjum vinnustað að bæta vinnuumhverfið með áherslu á samkennd og virðingu, auk þess sem efla þyrfti leiðir til þess að atvinnurekendur, stjórnendur og starfsmenn tileinki sér hugmyndafræði forvarna á sviði vinnuverndar.
Toppurinn á ísjakanum
Fram kom hjá Ásmundi Einari að frá því að reglugerðin gegn einelti og áreitni á vinnustöðum tók gildi í lok árs 2015 hafi Vinnueftirlitið gefið út 91 fyrirmæli til vinnustaða vegna mála sem falla undir reglugerðina og komið hafa til kasta eftirlitsins. Ráðherra segir að í ljósi umfjöllunar um þessi mál að undanförnu sé ástæða til að óttast að þessi málafjöldi sýni aðeins toppinn á ísjakanum.
Í lok fundarins undirrituðu forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og fleiri eftirfarandi viljayfirlýsingu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum:
Viljayfirlýsing um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum
Íslensk lög og reglur kveða á um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum skuli ekki liðið. Komi það upp skal bregðast við því með markvissum hætti.
Öryggiskennd og góður starfsandi skipta sköpum fyrir vellíðan starfsmanna. Á vinnustaðnum eigum við góð samskipti og virðum eftirfarandi sáttmála:
- Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og erum meðvituð um skyldur okkar.
- Við líðum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi, beitum því ekki og vitum að meðvirkni með geranda getur skaðað starfsmenn og vinnustað okkar.
-
Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.
-
Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir, en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.
-
Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
-
Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar og tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn.
-
Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.
-
Við sýnum öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.